Macron varð fyrir árásum rússneskra hakkara

Óháði frambjóðandinn Emmanuel Macron. Rússneskir tölvuhakkarar eru taldir hafa reynt …
Óháði frambjóðandinn Emmanuel Macron. Rússneskir tölvuhakkarar eru taldir hafa reynt að komast yfir persónuupplýsingar hans. AFP

Forsetaframboð Emmanuel Macrons varð fyrir árásum rússneskra tölvuhakkara í síðasta mánuði, að því er AFP-fréttastofan hefur eftir sérfræðingum um netöryggi. Óháði frambjóðandinn Macron komst á sunnudag áfram í síðari umferð frönsku forsetakosninganna ásamt Marine Le Pen, frambjóðanda frönsku Þjóðfylkingarinnar.

Kosið verður milli þeirra tveggja í síðari umferð kosninganna sem fer fram þann 7. maí.

Samkvæmt rannsókn japanska netöryggisfyrirtækisins Trend Micro beitti hópurinn „Pawn Storm“, sem áður hefur verið tengdur netárásum á ráðamenn og fyrirtæki á Vesturlöndum, svo nefndum vefveiðum [e. phishing] til að reyna að ná persónuupplýsingum frá Macron og félögum í stjórnmálahreyfingu hans En Marche! Ekki fylgdi fréttinni hvort þeim hefði tekist ætlunarverk sitt.

Pawn Storm hópurinn, sem einnig er þekktur undir heitinu APT28, er talinn hafa staðið að árásunum á landsnefnd Demókrataflokksins síðasta sumar og á einnig að hafa átt þátt í að grafa undan forsetaframboði Hillary Clinton.

Hakkarnarnir eru grunaðir um að tengjast rússnesku öryggislögreglunni og bendir AFP á að stjórnvöld í Rússlandi virðist styðja framboð Le Pen, sem nýlega kom í óvænta heimsókn til Moskvu þar sem hún fundaði með Vladimír Pútin.

Rússnesk stjórnvöld neita því hins vegar alfarið að þau séu að reyna að hafa áhrif á frönsku forsetakosningarnar.

„Hvaða hópar? Hvaðan koma þeir? Af hverju Rússland?“ sagði Dmitry Peskov talsmaður rússnesku stjórnarinnar við fjölmiðla. „Þetta líkist ásökunum bandarískra fjölmiðla, sem til þessa hafa reynst orðin tóm.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert