Morðið sýnilegt í sólarhring

AFP

Myndskeið af taílenskum föður myrða dóttur sína og taka eigið líf í beinni útsendingu á Facebook hefur vakið hörð viðbrögð. Ekki síst í heimalandinu þar sem hörð  viðurlög eru við áróðri gegn yfirvöldum en myndskeiðið fékk að vera sýnilegt öllum á Facebook í sólarhring áður en það var fjarlægt.

Líkt og mbl.is greindi frá í gær hengdi maðurinn, sem var 21 árs, 11 mánaða gamla dóttur sína á Phuket-eyju eftir harðvítugar deilur við barnsmóður sína. 

Fjölmargir hafa skrifað athugasemdir á Facebook-síðu mannsins þar sem morðið er harðlega gagnrýnt. Eins hafa feður skrifað að þeir hafi komist yfir vandamál sín tengdum fyrrverandi mökum og byggt um gott samband við börn sín í kjölfarið.

Samkvæmt frétt BBC eru oft sýnd hrottaleg fréttamyndskeið í sjónvarpsfréttum í Taílandi, myndskeið sem myndu aldrei fást sýnd í sjónvarpi á Vesturlöndum. Svo sem frá bílslysum ofl. 

Eitt af því sem er til umræðu er hvers vegna myndskeiðið fékk að vera óáreitt í heilan sólarhring á Facebook áður en það var fjarlægt af samfélagsmiðlunum. Vitað er að taílenska lögreglan fékk upplýsingar um myndskeiðið nánast á sömu stundu og glæpurinn var framinn. Hins vegar hefur ekki verið upplýst um hvenær hún hafði samband við Facebook og lét vita af því.

Að sögn lögreglunnar gefur þetta tilefni til þess að ræða óviðeigandi myndbirtingar á samfélagsmiðlum eins og Facebook, YouTube og Instagram og að slíkt efni verði að fjarlægja samstundis. En slíkt getur reynst þrautin þyngri.

Herforingjastjórnin í Taílandi er með mikið eftirlit á netinu og hefur lokað fyrir þúsundir vefja, sérstaklega vefi sem birta gagnrýni á konungsveldið.

Daginn sem atvikið skelfilega átti sér stað krafðist ráðuneyti starfrænna upplýsinga og efnahagsmála þess að innlend netþjónustufyrirtæki legðu sig harðar fram við að loka vefjum sem birtu efni sem væri gagnrýnið á konungsveldið. Talið er að ríkisstjón landsins sé að reyna að koma á einstefnu á netinu þannig að hægt sé að loka fyrir allt efni sem ekki er stjórnvöldum þóknanlegt.

Stjórnendur Facebook hafa tekið illa í allar slíkar tilraunir og þegar yfirvöld reyndu að loka fyrir aðgengi að Facebook skömmu eftir valdaránið 2014 varð allt vitlaust í samfélaginu þannig að lokunin varði aðeins í 30 mínútur.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert