Bandaríkin áfram í NAFTA

Í janúar stöðvaði Ford bílaframleiðandinn framkvæmdir við verksmiðju sem reisa …
Í janúar stöðvaði Ford bílaframleiðandinn framkvæmdir við verksmiðju sem reisa átti í Villa de Reye í Mexíkó. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, greindi leiðtogum Mexíkó og Kanada frá því í gær að Bandaríkin myndu ekki yfirgefa NAFTA-frísverslunarsamkomulagið að svo stöddu.

Nafta-samningurinn milli Bandaríkjanna, Mexíkó og Kanada hefur verið í gildi frá árinu 1994, þegar Mexíkó var að taka á sig mynd sem markaðshagkerfi. Samningurinn hefur fléttað ýmsum hagsmunum landanna saman, svo sem með auknum viðskiptum á milli þeirra, með birgðakeðjum sem liggja þvert á landamæri og með nýjum störfum.

Tilkynning Trumps kemur í kjölfar umfjöllunar bandarískra fjölmiðla um að forsetinn myndi fljótlega tilkynna með formlegum hætti útgöngu Bandaríkjanna úr NAFTA. 

Í tilkynningu sem skrifstofa forseta Bandaríkjanna sendi frá sér í gær kemur fram að Trump hafi hringt í forseta Mexíkó, Enrique Pena Nieto og forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, og greint þeim frá því að Bandaríkin myndu ekki ganga úr samkomulaginu að svo stöddu.

Þegar Trump var í kosningabaráttunni árið 2016 sagði hann samkomulagið sennilega versta viðskiptasamning sem nokkurn tímann hafi verið gerður. Þegar samkomulagið var gert, 1. janúar 1994, var Bill Clinton forseti Bandaríkjanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert