Sagðir takmarka fjölmiðlaaðgang að Le Pen

Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, með verkafólki Whirpool verksmiðjunnar. …
Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, með verkafólki Whirpool verksmiðjunnar. Franskir fjölmiðlar saka flokk hennar um að að heimila ekki öllum fjölmiðlum þátttöku í kosningafundum hennar. AFP

Rúmlega 30 franskir fjölmiðlar hafa lagt nafn sitt við bréf þar sem mótmælt er því sem þeir segja vera takmarkaðan aðgang að forsetaframbjóðanda frönsku Þjóðfylkingarinnar, Marine Le Pen.

Bréfið var birt eftir fjölda tilvika þar sem komið var í veg fyrir að fréttamenn gætu fylgst með kosningafundum Le Pen, sem mun keppa við óháða frambjóðandann Emmanuel Macron um forsetaembættið þann 7. maí.

„Í annarri umferð kosningabaráttunnar þá hefur Þjóðfylkingin ákveðið að velja hvaða fjölmiðlar fái að fylgja Marine Le Pen,“ segir í mótmælabréfinu.

„Nokkrir fjölmiðlar hafa orðið fyrir því að fulltrúum þeirra er meinaður aðgangur að upplýsingum eða synjað um tækifæri á að fylgja eftir frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar.“

Meðal þeirra fjölmiðla sem undirrita bréfið eru AFP-fréttastofan, dagblöðin Le Monde og Le Figaro, sjónvarpsstöðvarnar TF1 og BFM og France Info útvarpsstöðin.

„Við mótmælum harðlega þessari hindrun á að við getum framfylgt upplýsingaskyldu okkar,“ segir í bréfinu.

„Það er ekki stjórnmálaafla, hver sem þau kunna að vera, að ákveða hvaða fjölmiðlar fá að sinna lýðræðishlutverki sínu í samfélaginu.“

Fréttamannasamtökin Reporters Without Borders vöruðu á miðvikudag við því að fjölmiðlafrelsi hafi aldrei búið við jafnmikla ógn og nú á tímum falsfrétta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert