Prayut þiggur heimboð í Hvíta húsið

Prayut Chan-O-Cha og Donald Trump.
Prayut Chan-O-Cha og Donald Trump. AFP

Leiðtogi herforingjastjórnar Taílands hefur þáð boð Donald Trump Bandaríkjaforseta um að heimsækja Hvíta húsið. Trump bauð forsætisráðherranum heim í gær, þegar hann átti fjölda símtala við leiðtoga í Suðaustur-Asíu. Tilgangur samtalanna var að freista þess að afla Bandaríkjunum stuðnings vegna stöðunnar á Kóreuskaga.

Meðal þeirra sem fengu heimboð var Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, sem hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir stríð sitt gegn eiturlyfjum. Það hefur kostað þúsundir lífa og hafa mannréttindasamtök sakað Duterte um glæpi gegn mannkyninu.

„Forsætisráðherrann þakkaði og þáði boð Trump um að heimsækja Bandaríkin,“ sagði talsmaður Prayut Chan-O-Cha í yfirlýsingu. Þá sagði hann að forsætisráðherrann hefði þakkað fyrir sig með því að bjóða Trump að heimsækja Taíland.

Prayut Chan-O-Cha var hershöfðingi í hernum þegar herinn hrifsaði til sín völdin í landinu fyrir þremur árum. Valdaránið varð þess valdandi að samskiptin við Bandaríkin urðu erfiðari, þar sem herinn fangelsaði andstæðinga sína og lagði blátt bann við mótmælum.

Taílenskir ráðamenn mega hins vegar eiga von á því að verða teknir mýkri tökum nú þegar Trump situr í Hvíta húsinu en hann hefur ekki veigrað sér við því að sýna vinsemd í garð einræðisstjórna.

Hann hringdi t.d. nýlega í hinn tyrkneska Recep Tayyip Erdogan til að óska honum til hamingju með sigur sinn í þjóðaratkvæðagreiðslu um aukið vald forsetanum til handa.

Líkt og Trump hefur Prayut gaman af því að hnýta í fjölmiðla og spinna eigin ræður. Það gerir hann m.a. í vikulegu ávarpi sem er sýnt á öllum rásum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert