Telur miklar líkur á átökum við Norður-Kóreu

Moon Jae-In forseti Suður-Kóreu. Stjórnvöld þar í landi telja verulegar …
Moon Jae-In forseti Suður-Kóreu. Stjórnvöld þar í landi telja verulegar líkur á að það komi til hernaðarátaka á landamærum Suður- og Norður-Kóreu. AFP

Nýkjörinn forseti Suður-Kóreu, Moon Jae-in, segist telja miklar líkur á að það komi til átaka við Norður-Kóreu. Þetta hefur suður-kóreski vefmiðillinn Edaily eftir  forsetanum, en samskipti ráðamanna í Norður-Kóreu við önnur ríki hafa versnað mikið undanfarið ekki hvað síst vegna kjarnorku- og flugskeytatilrauna norður-kóreska hersins.

„Raunveruleikinn er sá að það eru verulega miklar líkur á hernaðarátökum við landamæri Norður-Kóreu,“ sagði Moon.

Reuters fréttastofan segir stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa greint frá því í dag að þau vilji opna á ný á samskipti við Norður-Kóreu.  Moon leitar nú tveggja lausna leiða, sem feli bæði í sér viðskiptabann og samræður við nágrannann í norðri í von um að það takist á fá Norður-Kóreu til að draga úr hernaðartilraunum sínum.

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa ekki farið leynt með það að þau vinna að þróun langdrægra flugskeyta sem geta borið kjarnaodda og sem eiga að geta gert árásir á Bandaríkin. Þau hafa til þessa hunsað allar óskir, m.a. frá sínum eina bandamanni Kína, um að draga úr flugskeytatilraunum sínum.

Norður-Kórea framkvæmdi síðustu flugskeytatilraun sína sl. sunnudag og sögðu þar um að ræða langdrægt flugskeyti sem gæti borið stóran kjarnaodd. Var tilraunin fordæmd af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

„Einfaldasta staðan er sú að opnað verði á samræður að nýju milli Norður- og Suður-Kóreu,“ sagði Lee Duk-haeng, talsmaður sameiningaráðuneytis Suður-Kóreu. Engar slíkar ákvarðanir hafa þó verið teknar.

Norður-Kórea lokaði á öll samskipti við Suður-Kóreu í fyrra eftir að suðrið herti á viðskiptabanni sínu gegn Norður-Kóreu í kjölfar kjarnorkutilrauna þess síðarnefnda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert