„Það var gríðarleg skelfing og öskur“

Mæðgurnar Linda Björk Hafþórsdóttir og Margrét María á tónleikunum í …
Mæðgurnar Linda Björk Hafþórsdóttir og Margrét María á tónleikunum í kvöld. Mynd/Linda Björk Hafþórsdóttir

„Ég hugsaði bara að grípa í dóttur mína, 11 ára, og hlaupa í burtu. Hljóp út og yfir handriðið og út á einhverja götu.“ Þetta segir Linda Björk Hafþórsdóttir sem var stödd á tónleikum Ariana Grande í Manchester Arena í kvöld þar sem sprengja sprakk. Hún segir sprenginguna ekki hafa verið í tónleikasalnum sjálfum, heldur í anddyri tónleikahallarinnar. Búið er að staðfesta að nokkrir hafi látist, en Linda segist aðeins hafa verið nokkrum metrum frá þeim stað sem sprengjan sprakk.

Frá vettvangi fyrir utan Manchester Arena í kvöld.
Frá vettvangi fyrir utan Manchester Arena í kvöld. AFP

Linda segir að sprengingin hafi orðið í lok tónleikanna. Grande var að spila uppklappslag og hún hafi ákveðið að fara út áður en öll strollan héldi af tónleikunum. „Við löbbuðum niður úr tónleikasalnum og vorum í aðalsalnum við innganginn,“ segir hún. Þær hafi ætlað að fara í Victoria Station sem sé neðanjarðarlestarstöð sem tengist leikvanginum. Þær hafi þó ákveðið að snúa við og fara út um annan útgang og þá hafi sprengingin orðið. „Ég hef aldrei heyrt svona háværa sprengingu áður, það kom reykur og það var gríðarleg skelfing og öskur,“ segir Linda og lýsir því svo hvernig hún hafi ásamt Margréti Maríu dóttur sinni hlaupið í skelfingu út úr tónleikahöllinni.

Þegar þær voru að koma sér út úr höllinni segir Linda að hún hafi séð manneskjur sem voru blóðugar í framan. Hún segist útiloka að um hafi verið að ræða blöðrur eða hátalara eins og hefur verið nefnt á samfélagsmiðlum. Segir hún sprenginguna og reykinn staðfesta annað.

Mikill fjöldi barna á tónleikunum

Þær mæðgur komust á hótelið sitt sem er í öðrum enda borgarinnar nokkuð fljótt að sögn Lindu, en þegar blaðamaður heyrði í henni á tólfta tímanum sagði hún að adrenalínið væri enn á fullu í líkamanum og erfitt gæti reynst að fara strax að sofa.

Hún segir það hafa verið rosalega mismunandi hvernig fólk brást við sprengingunni. Sumir hafi verið hálfstjarfir, meðan aðrir eins og hún hafi aðeins hugsað um að komast í burtu og bjarga barninu sínu.

Mikill fjöldi barna var á tónleikunum að sögn Lindu, en þeir hafi verið mjög vinsælir meðal ungra stelpna sem hafi verið þar í fylgd foreldra sinna. „Það var fólk með lítil börn, niður í 5-7 ára,“ segir hún. Linda segir að ein móðir hafi komið til sín þegar hún var á leiðinni út og sagt sér að það væru stelpur á meðal þeirra sem hafi særst í sprengingunni og að það blæddi úr andlitum þeirra.

„Þetta hefur gríðarleg áhrif, hér eru allir í sjokki og fólk verður svo varnarlaust,“ segir Linda, en bætir við að hún hafi einnig strax fundið fyrir samhug.

Ariana Grande hélt tónleikana þar sem sprengingin varð í kvöld.
Ariana Grande hélt tónleikana þar sem sprengingin varð í kvöld. AFP
Vopnbúnir lögreglumenn eru núna á vettvangi.
Vopnbúnir lögreglumenn eru núna á vettvangi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert