Hætta talin á frekari árásum

Bresk stjórnvöld hækkuðu viðbúnaðarstigið í landinu í dag í hæsta stig sem þýðir að talið sé að hætta kunni að vera á frekari hryðjuverkum í Bretlandi. Þetta tilkynnti Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í kvöld. Breskir hermenn hafa verið kallaðir út til þess að aðstoða vopnaða lögreglumenn við að tryggja öryggi breskra borgara.

„Þetta er möguleiki sem við getum ekki hunsað, að fleiri einstaklingar kunni að tengjast þessari árás,“ sagði May samkvæmt frétt AFP. Hryðjuverk sem framið var á tónleikum í borginni Manchester í Bretlandi í gærkvöldi kostaði 22 lífið, þar á meðal nokkur börn. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst því yfir að þau beri ábyrgð á árásinni.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að ástæðan fyrir ákvörðun breskra stjórnvalda sé sú að ekki hafi verið hægt að útiloka að árásarmaðurinn, hinn 22 ára gamli Salman Abedi, hafi átt vitorðsmenn. Þegar hefur 23 ára karlmaður verið handtekinn vegna málsins.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert