„Hugsaði bara um að komast í burtu“

„Þetta var það stór hvellur að ég hélt að þetta væri strax hryðjuverkaárás. Það kom líka mikil brunalykt inn í salinn.“ Svona lýsir Ísak Snær Ægisson sprengingunni í Manchester Arena sem varð fyrr í kvöld. Ísak var ásamt frænku sinni, Köru Lind Óskarsdóttur, á tónleikum söngkonunnar Ariana Grande, en sprengingin varð að hans sögn um tveimur mínútum eftir að Grande tók síðasta lagið.

Ísak segir að þau hafi ætlað að bíða eftir að fólk færi út úr höllinni þannig að þau þyrftu ekki að vera í troðningi. „Svo allt í einu heyrðist alveg rosalega stór hvellur og við panikuðum, hlupum af stað og reyndum að finna þann útgang sem var fjærst sprengingunni,“ segir Ísak og áætlar að þau hafi komist úr salnum á um þremur mínútum.

Kara Lind Óskarsdóttir og Ísak Snær Ægisson voru á tónleikunum …
Kara Lind Óskarsdóttir og Ísak Snær Ægisson voru á tónleikunum í Manchester Arena í kvöld.

„Það voru allir hágrátandi og í paniki, hlaupandi út um allt og öskrandi,“ segir hann og bætir við að þegar þau hafi komið úr salnum hafi þau séð blóðslettur á gólfinu. „Ég hugsaði bara um að komast í burtu,“ segir Ísak.

Hann segist strax hafa hringt í foreldra sína beint eftir að þau komu út, en foreldrar hans eru einnig  í Manchester með þeim. Fékk faðir hans strax leigubíl og kom og sótti þau við höllina.

Ísak segir að nú séu þau komin á hótelið og hafi horft á fréttirnar síðan þau komu þangað. „Ég er byrjaður að jafna mig á þessu og aðeins að fatta þetta meira,“ segir hann og bætir við að honum sé óneitanlega enn þá mikið brugðið.

Að lokum nefnir Ísak að það hafi komið þeim á óvart þegar þau mættu á tónleikana að lítil öryggisgæsla hafi verið við innganginn. Þannig hafi miðinn þeirra aðeins verið skannaður og þeim hleypt inn. Gæslufólk hafi aðeins litið í töskur þeirra sem báru slíkt, en honum hafi virst það vera takmarkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert