Lögleiðir Taívan samkynja hjónabönd?

Chi Chia-wei er einn helsti baráttumaður hinsegin fólks í Taívan.
Chi Chia-wei er einn helsti baráttumaður hinsegin fólks í Taívan. AFP

Taívan gæti orðið fyrsta ríkið í Asíu til að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra, en dómstóll í eyríkinu tekur ákvörðun um það á morgun.

Baráttusamtök hinsegin fólks í Taívan eru vongóð um að dómstóllinn muni dæma þeim í vil, en aukinn þrýstingur hefur verið á stjórnvöld í ríkinu um að lögleiða samkynja hjónabönd. Þó eru ekki allir á því máli en reiði hefur verið uppi á meðal íhaldssamra hópa sem hafa mótmælt breytingum á löggjöfinni harðlega.

Búist er við því að fjöldi fólks komi saman í miðborg Taipei, höfuðborgar Taívan, á morgun þegar dómurinn verður kveðinn upp. Búist er við niðurstöðu um klukkan 16 að staðartíma.

Ákvörðunin verður tekin af 14 dómurum sem munu ákveða hvort núverandi löggjöf stangist á við stjórnarskrá. Að minnsta kosti 10 dómarar þurfa að samþykkja breytinguna svo hún fari í gegn.

Chi Chiawei, einn helsti baráttumaður hinsegin fólks í Taívan, er viss um að dómstóllinn muni lögleiða hjónabönd samkynhneigðra. Chiawei hefur barist fyrir réttindum hinsegin fólks í 30 ár og var einn þeirra sem skoraði á stjórnvöld að taka málið fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert