Fleiri að verki

AFP

Innanríkisráðherra Bretlands, Amber Rudd, segir að Salman Abedi hafi að öllum líkindum ekki verið einn að verki í anddyri tónleikahallarinnar í Manchester. Leyniþjónustan hafði fylgst með Abedi.

Rudd segir að miðað við hvernig staðið var að verki í Manchester og hve árásin var vel undirbúin bendi allt til þess að fleiri en Abedi hafi komið að undirbúningi árásarinnar. Alls létust 22 í sjálfsvígsárásinni og 59 særðust.

Í viðtali við BBC í morgun sagði Rudd að leyniþjónustan hafi vitað af Abedi og meira eigi eftir að koma þar í ljós.

Meðal fórnarlamba árásarinnar eru pólsk hjón sem höfðu farið í tónleikana að sækja dætur sínar sem þar voru. Þau hétu Angelika og Marcin Klis, samkvæmt færslum ættingja þeirra á samfélagsmiðlum. Þriðji Pólverjinn særðist í árásinni en hann var á tónleikunum með fjölskyldu sinni. Samkvæmt upplýsingum frá pólsku utanríkisþjónustunni er hann alvarlega særður en vonir standi til að hann muni lifa af.

Lýst hefur verið yfir hæsta viðbúnaðarstigi í Bretlandi í kjölfar árásarinnar og biður borgarstjórinn í London, Sadiq Khan, borgarbúa um að halda ró sinni. Hann sendi þeim myndskilaboð í morgun um áhrif þessa á daglegt líf í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert