Fleiri handtökur í Manchester

Breskur hermaður og lögreglumaður á götum London í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar …
Breskur hermaður og lögreglumaður á götum London í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar í Manchester. AFP

Breska lögreglan handtók í dag konu í borginni Manchester þar sem 22 létu lífið í hryðjuverkaárás á tónleikum. Þar með hafa sex verið handteknir í Bretlandi vegna árásarinnar, fimm karlmenn og ein kona. Þar á meðal er eldri bróðir árásarmannsins, Salmans Abedi

„Kona hefur verið handtekin í tengslum við yfirstandandi rannsókn,“ er haft eftir talsmanni lögreglunnar í Manchester. Konan var handtekin við húsleit í Blackley í norðurhluta borgarinnar en ekki hefur komið fram nákvæmlega hvernig hún er talin tengjast málinu. 

Frá þessu er greint í frétt AFP en þess utan hefur lögreglan í Líbíu handtekið yngri bróður Abedis og föður hans í Trípólí, höfuðborg landsins. Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph að faðirinn, Ramadan Abedi, hafi í lok síðustu aldar verið liðsmaður í hópi vígamanna sem hafi tengst hryðjuverkasamtökunum al-Kaída sem reynt hafi að koma þáverandi einræðisherra Líbíu frá völdum. Þetta er fullyrt af fyrrverandi embættismanni á sviði öryggismála þar í landi, Abdel-Basit Haroun. Ramadan Abedi hafnar þessu.

Breska lögreglan hefur lagt áherslu á að uppræta hryðjuverkasellu sem Abedi er talinn hafa verið hluti af áður en hún lætur aftur til skarar skríða. Fram hefur komið í breskum fjölmiðlum að komið hafi ábendingar frá almennum borgurum á undanförnum árum til yfirvalda þar sem varað hafi verið við öfgafullum skoðunum Abedis.

Hafa bresk yfirvöld verið gagnrýnd harðlega fyrir að ekki hafi verið brugðist við þeim ábendingum. Talið er að ábendingar hafi borist frá fimm mismundandi aðilum. Meðal annars er haft eftir vinum Abedis að hann hafi lýst jákvæðri afstöðu til sjálfsmorðsárásarmanna og sagt í góðu lagi að fremja slíka árás.

Breskir hermenn hafa verið kallaðir út til þess að aðstoða lögreglu við öryggisgæslu mikilvægra staða og til þess að vernda borgarana.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert