Fyrirfór sér eftir einelti á vinnustað

George Cheese var 18 ára þegar hann fyrirfór sér.
George Cheese var 18 ára þegar hann fyrirfór sér.

Breskur unglingspiltur sem starfaði sem lærlingur hjá bílaframleiðandanum Audi fyrirfór sér eftir að hafa lent í grófu einelti á vinnustaðnum. Læstu samstarfsfélagar hans hann meðal annars inni í búri og kveiktu í fötunum hans. Þetta kemur fram í rannsóknargögnum málsins að því er Telegraph greinir frá. 

George Cheese var 18 ára gamall en foreldrar hans segja að hann hafi verið „í skýjunum“ þegar hann fékk lærlingsstöðuna hjá bílaframleiðandanum árið 2015. Skömmu eftir að hann byrjaði fór hann hins vegar að koma heim með marbletti og göt á fötunum sínum. Þá kom upp eitt tilvik þar sem samstarfsfélagar Cheese læstu hann inni í búri og kveiktu í fötunum hans. 

„Ég verð að hætta. Ég get ekki farið þangað aftur“

Cheese fyrirfór sér 9. apríl 2016, þegar hann hafði unnið hjá Audi í um hálft ár. Hann hafði átt við geðræn vandamál að stríða og var enn á biðlista eftir tíma með ráðgjafa. 

Keeth Cheese, faðir piltsins, segir hann hafa gengið um gólf kvöldið áður en hann fyrirfór sér og sagt við sjálfan sig: „Ég verð að hætta. Ég get ekki farið þangað aftur.“ Segist faðirinn ekki geta fyrirgefið sjálfum sér að hafa ekki hlustað á son sinn þegar hann reyndi að tala við hann umrætt kvöld. 

Móðirin, Purdy Cheese, segist hafa vitað af því í nokkra mánuði að andlegri líðan sonar hennar hafði hrakað og hún hafi minnt hann á að taka geðlyfin sín dagana fyrir fráfall hans. Þá segir hún að andlegt ofbeldi vinnufélaganna hefði haft meiri áhrif á son hennar en líkamlega ofbeldið.

„Taktu gleðipillurnar þínar George

Þá segir móðirin auk þess að eftir að vinnufélagar hans hafi komist að andlegum veikindum Cheese hafi athugasemdir á borð við: „Taktu gleðipillurnar þínar George, þú munt þurfa á þeim að halda,“ orðið daglegt brauð. 

Foreldrar Cheese segja son sinn hafa kvartað undan eineltinu við yfirmenn en að ekkert hafi verið gert í því. Þá hafi yfirmenn hans jafnvel sjálfir tekið þátt í eineltinu. Ofan á allt saman hafði Cheese verið að ganga í gegnum erfiða tíma með kærustu sinni, en þau höfðu verið sundur og saman í tvö ár. 

Yfirmenn og starfsmenn bílaframleiðandans neita því að um einelti hafi verið að ræða og segja að aðrir lærlingar hjá fyrirtækinu fái sambærilega meðferð. Rannsókn málsins stendur enn yfir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert