Hafa handtekið sjö manns

AFP

Breska lögreglan handtók í kvöld sjöunda einstaklinginn í tengslum við hryðjuverkið í borginni Manchester á mánudagskvöldið sem kostaði 22 manns lífið. Karlmaður var handtekinn í bænum Nuneaton í Warwick-skíri sem er fyrsta handtakan utan Manchester.

Fram kemur í frétt AFP að handtakan hafi átt sér stað í kjölfar húsleitar í bænum sem er í Warwick-skíri. Samtals hafa þá sjö verið handteknir í kjölfar árásarinnar. Sex karlmenn og ein kona. Þar á meðal er eldri bróðir árásarmannsins Salmans Abedi.

Verið er að yfirheyra fólkið samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni. Breska lögreglan leggur alla áherslu á að uppræta hryðjuverkahóp sem hún telur að Abedi hafi verið hluti af. Lögreglan er í keppni við tímann en óttast er að fleiri í hópnum fremji hryðjuverk.

Lögreglan í Líbíu hefur handtekið föður Abedis og yngri bróður hans. Sá síðarnefndi er grunaður um að hafa undirbúið annað hryðjuverk og vitað um fyrirætlanir bróður síns. Faðirinn er sagður hafa verið liðsmaður í hópi vígamanna í lok síðustu aldar sem tengst hafi hryðjuverkasamtökunum al-Kaída. Hann hefur þvertekið fyrir það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert