Rannsaka hryðjuverkanet

Lögregla að störfum við Granby House í Manchester.
Lögregla að störfum við Granby House í Manchester. AFP

Rannsókn lögreglunnar í Manchester beinist að hryðjuverkahópi, að sögn yfirlögregluþjónsins Ian Hopkins. Fjórir hafa verið handteknir, þeirra á meðal bróðir Salman Abedi, og þá hefur lögregla staðið í aðgerðum í miðborg Manchester frá því fyrir hádegi.

Hopkins hélt blaðamannafund fyrir stundu, þar sem hann neitaði m.a. að tjá sig um það hvort lögregla hefði fundið staðinn þar sem sprengjan sem varð 22 að bana á mánudagskvöld var smíðuð.

Spurður að því hvort lögregla leitaði sprengjugerðarmannsins svaraði Hopkins:

„Það er augljóst að við erum að rannsaka net og líkt og ég hef sagt þá miðar starfinu áfram. Það er umfangsmikil rannsókn í gangi og aðgerðir á Stór-Manchestersvæðinu í þessum töluðu orðum.“

Hopkins staðfesti að lögreglumaður hefði verið meðal þeirra sem létust í árásinni en fregnir herma að eiginmaður hennar og börn séu meðal særðu. Yfirlögregluþjónninn sagði að það myndi taka fjóra til fimm daga að ljúka krufningum.

Ummæli Hopkins renna stoðum undir grun manna um að Adebi hafi ekki verið einn að verki þegar hann lét til skarar skríða eftir tónleika Ariönu Grande á mánudagskvöld.

Ef rétt reynist, að hópur fólks hafi staðið að baki árásinni, munu öryggisyfirvöld þurfa að svara spurningum um hversu mikið þau vissu um hina grunuðu.

Sérfræðingar segja sprengjugerðina hafa kallað á ákveðna þekkingu.

Lögregla réðst inn í íbúð í Granby House í miðborg Manchester fyrr í dag. Að sögn íbúa var íbúðin leigð út í gegnum Airbnb. Adam Prince, 38 ára, sagði í samtali við Guardian að íbúar hefðu nýlega kvartað yfir miklum fjölda pakka sem hefðu borist og beðið í póstherbergi fjölbýlishússins. Hann sagði það þó ekki endilega tengjast umræddri íbúð.

Hermaður og lögregla standa vörð við Buckingham-höll. Ekki er gert …
Hermaður og lögregla standa vörð við Buckingham-höll. Ekki er gert ráð fyrir að hermenn verði sendir til Manchester. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert