Trump kominn með lögfræðing í Rússamálinu

Donald Trump og eiginkona hans Melania við komuna til Rómar …
Donald Trump og eiginkona hans Melania við komuna til Rómar í gær. Trump hefur nú fengið Kasowitz til að vera fulltrúa sinn í rannsókninni á meintum Rússatengslum. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fengið lögfræðinginn Marc Kasowitz til að vera fulltrúa sinn í rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar FBI á meintum afskiptum rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningunum, sem og mögulegum tengslum þeirra við framboð Trumps.

Fréttavefur BBC segir Trump hafa nýtt sér þjónustu Kasowitz, sem þekktur er fyrir að kunna vel til verka, í meira en áratug. Það var m.a. Kasowitz sem hótaði að fara í mál við New York Times, þegar Trump var í framboði, ef blaðið drægi ekki til baka frétt þess efnis að Trump hefði káfað á konu. Blaðið stóð fast á sínu og dró fréttina ekki til baka.

Greint var frá því í síðustu viku að Robert Mueller, fyrrverandi yfirmaður FBI, hefði verið skipaður sér­stakur ráðgjafi sem hafa mun yfirumsjón með rannsókn á mögulegum afskiptum Rússa og tengslum við framboð Trumps.

Trump hefur neitað því alfarið að einhver tengsl séu milli framboðs síns og Rússa.

„Hann getur verið aðgangsharður – hann hefur það alveg í sér,“ hefur Reuters eftir lögfræðinginum John Quinn sem hefur unnið með og á móti Kasowitz. „En hann getur líka verið mjúkur eins og silki, kurteis og tillitsamur.“

Kröfur um sérstaka rannsókn á málinu urðu háværar eftir að Trump rak James Comey, þáverandi forstjóra FBI, úr starfi fyrr í þessum mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert