Upplýsingaleki grefur undan rannsókn

Hermaður ræðir við lögreglumann skammt frá breska þinghúsinu.
Hermaður ræðir við lögreglumann skammt frá breska þinghúsinu. AFP

Lögreglan sem rannsakar sprengjuárásina í Manchester á mánudagskvöld er hætt að deila upplýsingum með bandarísku lögreglunni eftir að upplýsingar úr rannsókninni birtust í þarlendum fjölmiðlum.

Ráðamenn í Bretlandi voru bálreiðir, samkvæmt heimildum BBC, þegar þeir sáu ljósmyndir frá vettvangi birtast í dagblaðinu New York Times. Einnig birtust upplýsingar um árásina í frönskum fjölmiðlum.

Nafni árásarmannsins, Salman Abedi, var sömuleiðis lekið til bandarískra fjölmiðla 24 klukkustundum eftir árásina. 22 fórust, þar á meðal börn, og 64 særðust.

Theresea May, forsætisráðherra Bretlands, ætlar að ræða upplýsingalekann við Donald Trump Bandaríkjaforseta á fundi NATO í dag.

Lögreglan í Manchester að störfum við hús í Elsmore Road …
Lögreglan í Manchester að störfum við hús í Elsmore Road í Fallowfield. AFP

Tveir menn voru handteknir í morgun í Withington í Manchester í tengslum við árásina. Þar með eru átta manns í haldi lögreglunnar í Manchester vegna árásarinnar.

Konu, sem hafði áður verið handtekin, hefur verið sleppt úr haldi lögreglu.

Talsmaður andhryðjuverkadeildar lögreglunnar í Manchester sagði að rannsakendur reiddu sig á að geta treyst lögreglunni víðs vegar um heiminn.

„Þessi samskipti gera okkur kleift að starfa saman og deila viðkvæmum upplýsingum sem hjálpa okkur í baráttunni gegn hryðjuverkum og við að vernda almenning, bæði heima og erlendis,“ sagði talsmaðurinn í yfirlýsingu.

Kona skoðar blóm sem hafa verið lögð niður á jörðina …
Kona skoðar blóm sem hafa verið lögð niður á jörðina til minningar um fórnarlömb árásarinnar. AFP

„Þegar traustið er rofið grefur það undan samskiptunum, grefur undan rannsókninni okkar og sjálfstrausti fórnarlambanna, vitnanna og fjölskyldnanna þeirra,“ bætti hann við.

„Skaðinn verður enn meiri þegar birt eru í óleyfi möguleg sönnunargögn í miðri risastórri rannsókn á hryðjuverkum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert