Clinton líkti Trump við Nixon

Hillary Clinton líkti Donald Trump við Richard Nixon í ræðu …
Hillary Clinton líkti Donald Trump við Richard Nixon í ræðu í dag. AFP

Hillary Clinton gagnrýndi Donald Trump harðlega í dag og líkti honum við Richard Nixon, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem sagði af sér árið 1974 eftir Watergate-hneykslið.

Clinton, sem tapaði gegn Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum fyrr á árinu, lét þessi ummæli falla í ræðu sem hún hélt í Wellesley College í dag. 48 ár eru liðin síðan hún útskrifaðist sjálf úr skólanum.

Eins og fjallað hefur verið um vék Trump James Comey, for­stjóra al­rík­is­lög­regl­unn­ar, úr starfi á dögunum. Comey stýr­ði rann­sókn­inni á því hvort aðstoðar­menn Trumps hafi veitt Rúss­um aðstoð þegar reynt var að hafa áhrif á þróun kosn­inga­bar­átt­unn­ar vest­an­hafs í fyrra. Gaf Clinton í skyn að málið minnti á Waterga­te-hneykslið þegar Nixon reyndi að þæfa rann­sókn á inn­broti á kosn­inga­skrif­stof­ur demó­krata í Waterga­te-bygg­ing­unni með því að reka Archi­bald Cox, sér­leg­an sak­sókn­ara í mál­inu, í októ­ber 1973.

Nefndi aldrei nafn Trumps

Clinton nefndi þó aldrei nafn Trumps í ræðunni, en hvatti útskriftarnemendur til að taka þátt í stjórnmálum þar sem framtíð Bandaríkjanna væri „í höndum hugrakks, útsjónasams fólks eins og ykkar sem fer fram á sannleika og heiðarleika.“

Áheyrendur fögnuðu Clinton ákaflega nokkrum sinnum í gegnum ræðuna.

„Þið gætuð hafa heyrt að hlutirnir fóru ekki alveg eins og áformað var, en vitiði hvað? Mér líður vel,“ sagði hún. „Ég ætla samt ekki að ljúga, hvítvín hjálpaði örlítið,“ bætti hún við og uppskar hlátrasköll úr salnum.

Skaðlegar samsæriskenningar veki upp ótta

Sagði hún útskriftarnemendur vera að útskrifast á tímum þar sem vegið væri gegn sannleika og heiðarleika. „Farið inn á samfélagsmiðla í tíu sekúndur og það mun blasa við ykkur,“ sagði hún. Þá bætti hún við að fólk afneitaði nú vísindum og héldi á lofti skaðlegum samsæriskenningum. Með því væri vakinn upp hömlulaus ótti á innflytjendum, múslimum, minnihlutahópum og fátækum.

„Sumir afneita jafnvel því sem við sjáum með eigin augum, eins og stærð mannfjölda,“ sagði hún og réðst þar aftur óbeint gegn Trump sem hélt því fram í janúar að fjölmiðlar hefðu farið með rangfærslur um fjölda fólks sem fylgdist með innsetningu hans. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert