Tíu í haldi vegna árásar

Átta eru í haldi bresku lögreglunnar grunaðir um aðild að árás í Manchester á mánudagskvöldið. Tveir eru í haldi lögreglunnar í Líbýu vegna málsins. 22 létust í árásinni. Kosningabaráttan fyrir þingkosningarnar í Bretlandi 8. júní hefst að nýju í dag en hlé var gert á henni vegna árásarinnar.

Mikill viðbúnaður er í Bretlandi en rannsókn lögreglu beinist einkum að því hvort hryðjuverkahópur frá Líbýu hafi staðið á bak við árásina. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst ábyrgð á hendur sér. Faðir og bróðir sjálfsvígsárásarmannsins, Salman Abedi, eru í haldi lögreglu í Líbýu að beiðni breskra yfirvalda.

Lögreglan handtók mann í Moss Side  í Manchester í nótt í tengslum við árásina en karl og kona sem áður höfðu verið handtekin í þágu rannsóknarhagsmuna hafa verið látin laus. Af þeim átta sem eru í haldi í Bretlandi er Isamil Abedi, 23 ára gamall bróðir árásarmannsins, Salman Abedi.

Lögreglan leitaði á nokkrum stöðum í Manchester í gær og fann meðal annars hluti sem svipar til þeirra sem notaðir voru í sprengjuna sem sprakk í anddyri tónleikahallarinnar á mánudagskvöldið. Lögreglan hefur varað við því að ekki sé útilokað að samstarfsmenn Abedi gangi enn lausir.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillerson, er væntanlegur til London síðar í dag til þess að sýna samstöðu Bandaríkjamanna með bresku þjóðinni. Mikil reiði er meðal breskra yfirvalda vegna leka á viðkvæmum upplýsingum tengdum rannsókninni til bandarískra fjölmiðla.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur hótað þeim sem beri ábyrgð á lekanum lögsókn enda hefur hann haft mjög slæm áhrif á samskipti ríkjanna tveggja.

Íhaldsflokkurinn með 43% og Verkamannaflokkurinn 38%

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagði við Trump á fundi leiðtoga NATO-ríkjanna í Brussel í gær að slíkum leyniupplýsingum eigi að halda öruggum en ekki deila þeim með fjölmiðlum.

Vopnaðir hermenn eru enn á vettvangi á ýmsum stöðum í Bretlandi og í fyrsta skipti eru nú vopnaðir lögreglumenn um borð í lestum landsins.

Samkvæmt skoðanakönnun YouGov sem birt er í The Times í dag er Íhaldsflokkurinn með 43% fylgi en Verkamannaflokkurinn er með 38% fylgi. Mjög hefur minnkað bilið á milli flokkanna á stuttum tíma.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert