Von á „hressilegum“ umræðum við Trump

Búist er við hörðum umræðum milli Donald Trump Bandaríkjaforseta og annarra leiðtoga G7-ríkja á fundi ríkjanna á Sikiley í dag. Trump hefur þegar ýft fjaðrir bandamanna í Atlantshafsbandalaginu (NATO) með því að húðskamma þá fyrir að verja ekki meira fé til varnarmála. Þá sakaði Trump Þjóðverja um að vera „mjög slæma“ varðandi viðskiptasamninga þjóðanna.  

Ummæli Trump hafa þegar varpað nokkrum skugga á ráðstefnuna þar sem leiðtogar annarra ríkja ætluðu, að sögn Reuters-fréttastofunnar, að reyna að mýkja afstöðu Trump til viðskiptasamninga og loftslagsbreytinga.

Leiðtogar Bretlands, Kanada, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Japans og Bandaríkjanna munu á fundinum ræða hryðjuverkavandann, málefni Sýrlands og Norður-Kóreu, sem og alþjóðaefnahagsmál.

„Við munum eiga hressilegar umræður um viðskipti og við munum ræða um hvað frjáls og opin þýðir,“ sagði Gary Cohn, efnahagsráðgjafi Hvíta hússins.

Cohn taldi einnig von á „frekar hressilegum“ umræðum um það hvort Trump eigi að virða skuldbindingar Bandaríkjamanna um Parísarsamkomulagið.

Trump hefur áður hafnað því að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum og sagt um blekkingu að ræða. Reuters segir ekki búist við að endanleg niðurstaða fáist um það hvort Bandaríkin virði samkomulagið að fundi loknum.  

Leiðtogar Evrópu hafa gefið í skyn að þeir muni þrýsta fast á Trump varðandi loftslagsmálin á fundinum.

„Þetta er fyrsta raunverulega tækifærið sem alþjóðasamfélagið hefur haft til þess að þrýsta á Bandaríkjastjórn um að sýna stefnu sína, sérstaklega í umhverfismálum,“ sagði Tristen Naylor, fræðimaður við Oxford-háskóla og aðstoðarforstjóri G20-rannsóknarhópsins.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Emmanuel Macron, nýkjörinn forseti Frakklands, verða …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Emmanuel Macron, nýkjörinn forseti Frakklands, verða báðir á fundinum. Búist er við „hressilegum“ umræðum um ýmis mál. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert