Öllum flugferðum BA aflýst í dag

Hundruð farþega British Airways komast hvorki lönd né strönd vegna …
Hundruð farþega British Airways komast hvorki lönd né strönd vegna bilunar í tölvukerfum flugfélagsins. AFP

Stjórnendur British Airways hafa tilkynnt að öllum flugum flugfélagsins frá Heathrow og Gatwick í London hefur verið aflýst í dag. Bilun í tölvukerfi er um að kenna.

Þegar hafði öllum flugum til kl. 18 að breskum tíma verið frestað. Nú er ljóst að bilunin í tölvukerfinu, sem hefur áhrif á flug félagsins um allan heim, er alvarlegri en í fyrstu var talið.

Tafir eru á flugi British Airways víða um heim. 

Í beinni lýsingu á vef BBC um stöðu mála segir að farþegar séu margir hverjir reiðir þar sem þeir hafi ekki fengið nægar upplýsingar um gang mála. Fréttamaður BBC segir að British Airways hafi fyrir nokkru boðið út tölvuþjónustu sína og sé henni nú sinnt á Indlandi. Hafi það verið gert til að spara peninga. 

Fólk sem er statt á Heathrow segir að öngþveiti hafi ríkt í flugstöðinni, í flugstöðvarbyggingu 5, þaðan sem British Airways flýgur.

Stjórnendur flugfélagsins segja að ekkert bendi til þess að um tölvuárás sé að ræða. Félagið hefur boðið farþegum sem tafirnar hafa haft áhrif á að bóka annað flug eða fá endurgreitt. Mikil ferðalög eru á Bretum þessa helgi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert