Ókeypis aðgangur að þjóðgörðunum í ár

Í tilefni af því að 150 ár eru liðin frá stofnun Kanada verður ókeypis aðgangur að öllum þjóðgörðum landsins í ár. Búist er við metfjölda gesta og hafa náttúruverndarsinnar gagnrýnt þessa ákvörðun stjórnvalda harðlega.

Við þjóðveginn að Banff-þjóðgarðinum í vesturhluta Kanada hafa vegfarendur lagt bílum sínum út í vegkant í skyndi til að freista þess að sjá björn sem sagður er á gangi í grenndinni.

„Við höfum séð magnað dýralíf hérna, miklu meira en á öðrum svæðum,“ segir Bandaríkjamaðurinn Tony Garland sem er kominn í þjóðgarðinn frá Seattle.

Garland er í hópi fjölmargra bandarískra og asískra ferðamanna sem nú streyma til Kanada, m.a. til að heimsækja þjóðgarða landsins. 

Í ár er búist við metfjölda ferðamanna. Ókeypis aðgangur verður í alla þjóðgarða, bæði fyrir Kanadamenn og ferðamenn. 

Á meðan ferðaþjónustan fagnar þeirri spá hafa aðrir miklar áhyggjur af því að ágangur verði of mikill og að í skjóli fjöldans fari ferðamenn að ganga verr um, fara of nærri dýrunum, traðka niður gras og lyng og henda rusli um allt. Merki um slíka hegðun eru þegar farin að sjást og áhyggjurnar hafa vaxið samhliða áhyggjum af hvort hægt verði að tryggja sjálfbærni þjóðgarðanna sem eru yfir fjörutíu talsins. 

„Frá því í janúar höfum við fengið tvöfalt fleiri bókanir á tjaldsvæðin okkar miðað við sömu mánuði og í fyrra,“ segir Greg Danchuk, þjóðgarðsvörður í Banff. „Okkar hlutverk er tvíþætt: Að vernda náttúruna og að veita fólki tækifæri til að njóta hennar.“

22.700 manns starfa í þjóðgörðum Kanada. Árlega skila garðarnir um 110 milljörðum króna til ríkissjóðs. Í ár var ákveðið að veita auknu fé til rekstrar garðanna næstu tvö árin.

Umhverfisvernd ekki í forgangi

Gagnrýnendur segja að fjármunirnir muni ekki fara í það að vernda náttúruna og saka yfirvöld um skammsýni. „Samkvæmt lögum á að setja náttúruna í fyrsta sæti og það hefur ekki verið gert,“ segir Anne-Marie Syslak, framkvæmdastjóri Canadian Parks and Wilderness Society (CPAWS). „Of margt fók á of stuttum tíma án þess að umhverfisvernd sé sett í forgang, það stefnir görðunum í voða.“

Garland segist hafa orðið var við hegðun gesta garðsins sem ekki sé til eftirbreytni. Banff-garðurinn er í Klettafjöllunum og er vinsælasti þjóðgarður Kanada. Þangað koma yfir fjórar milljónir gesta árlega. „Sumir gestirnir eru ekki sérstaklega vel upplýstir um dýralífið,“ segir hann. „Þeir fara út úr bílum sínum og fara nálægt björnunum, sem er bara frekar brjálæðislegt.“

Edward Johnson, prófessor í vistfræði við háskólann í Calgary, bendir á að þorp og bæir í nágrenni Banff-garðsins hafi áður verið fullir af námuverkamönnum og starfsmönnum olíufyrirtækjanna. Nú sinna flestir störfum í ferðaþjónustu.

Tvíeggjað sverð

Johnson segir að ferðaþjónusta og náttúruvernd geti farið hönd í hönd. Hægt sé að nýta peninga sem ferðamenn greiða fyrir þjónustu í byggðunum til að styðja við náttúruvernd, svo dæmi sé tekið.

„Því fleiri sem vilja koma og njóta náttúrunnar, því líklegra er að til verði peningar til að vernda. En þetta er tvíeggjað sverð.“

Hann segir að gera þurfi mun meiri rannsóknir á áhrifum ferðamanna á náttúruna. „Allir verða að huga vel skipulagi og uppbyggingu og átta sig á áhrifunum og afleiðingunum.“

Hann bendir enn fremur á að enn sem komið er eyði yfirvöld meiri peningum í það að kynna ferðaþjónustu á svæðunum en að vernda þau.

Syslak segir að allir beri ábyrgð á því að viðhalda svæðunum svo að þau verði í góðu ásigkomulagi fyrir komandi kynslóðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert