Vona að flugið verði nánast á áætlun

Farþegar þurftu að bíða í brottfararsal á Heathrow-flugvelli, sumir tímunum …
Farþegar þurftu að bíða í brottfararsal á Heathrow-flugvelli, sumir tímunum saman, í gær. Ekki var hægt að skrá fólk inn í tölvukerfin og því ekki leyfilegt að hleypa því inn í sjálfa flugstöðina. AFP

Flugfélagið British Airways vonast til þess að flest flug á vegum þess verði á áætlun í dag en í gær var tugum flugferða frestað vegna umfangsmikillar bilunar í tölvukerfum. Öllu flugi frá Heathrow og Gatwick í London var til að mynda aflýst í gær. 

Þúsundir farþega komust því hvorki lönd né strönd í gær við upphaf langrar helgar á Bretlandseyjum. mbl.is ræddi í gær við Íslending sem var í þessum hópi.

Talsmenn flugfélagsins segja að búast megi við einhverjum töfum í dag því margar vélar félagsins og áhafnir þeirra þurftu að halda kyrru fyrir í gær. 

„Á þessu stigi málsins erum við að vonast til þess að taka áætlunarflug frá Gatwick upp að mestu sem og á Heathrow,“ sagði í tilkynningu frá British Airways í morgun. Er farþegum sem eiga bókað flug í gegnum þessa tvo flugvelli bent á að fara ekki af stað út á völl fyrr en staðfest hefur verið hvenær flug þeirra er áætlað.

Bilunin hafði áhrif á ferðalög þúsunda í gær. Flugvélar British …
Bilunin hafði áhrif á ferðalög þúsunda í gær. Flugvélar British Airways biðu í röðum á Heathrow og víðar. AFP

Bilunin í tölvukerfinu olli því að ekki var hægt að skrá farþega inn í kerfin. Þá hafði hún einnig áhrif á símaver flugfélagsins og vefsíðu þess.

Ekki er talið að um tölvuárás hafi verið að ræða. Forstjóri félagsins, Alex Cruz, sagði í yfirlýsingu í gær að líklega hefði flökt á rafmagni haft þessi áhrif. 

Allir þeir sem áttu bókað flug í gær sem var frestað fá endurgreitt vilji þeir ekki nýta sér flug í dag eða næstu daga, að sögn Cruz. 

Almennur frídagur er í Bretlandi á mánudag, svokallað „bank holiday“ og því margir á faraldsfæti. 

Nokkuð öngþveiti skapaðist á Heathrow-flugvelli í gær vegna málsins. Í flugstöðvarbyggingu 5, þaðan sem British Airways flýgur, biðu hundruð farþega tímunum saman eftir upplýsingum um hvað verða vildi. Þurfti fólkið að bíða í brottfararsalnum þar sem ekki var hægt að skrá það inn í kerfin og leyfa því að fara inn í sjálfa flugstöðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert