Blæðandi með hvítháf um borð

Sjómanninum Terry Selwood brá heldur betur í brún þegar stærðarinnar hvíthákarl stökk um borð í bát hans undan Evans Head í New South Wales í Ástralíu. Háfurinn reyndist 2,7 metrar að lengd og vó 200 kg.

Að sögn Selwood, sem hefur stundað veiðar í 60 ár, hlýtur háfurinn að hafa stokkið rúman metra upp úr sjónum til að geta lent beint ofan í bátnum. Sjómanninum varð mikið um en hann fékk brjóstugga hákarlsins í handlegginn og hlaut sár sem blæddi úr.

„Þarna var ég á fjórum fótum og hann horfir á mig og ég horfi á hann og svo fer hann að kippast til og hristast og ég hraðaði mér upp á borðstokkinn,“ sagði Selwood í samtali við ABC.

„Ég missti mikið af blóði; ég var í sjokki. Ég gat ekki meðtekið hvað var að gerast en hugsaði svo: Guð minn góður, ég verð að komast héðan.“

Selwood gerði viðbragðsaðilum viðvart og var bjargað af bátnum. Björgunarmennirnir sneru síðan aftur til að sækja bát sjómannsins. Lögregla var kölluð til vegna hákarlsárásar og Selwood fluttur á sjúkrahús.

Hákarlinn verður krufinn og sýni tekin í rannsóknarskyni.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert