Vilja forða fílunum frá sorpinu

AFP

Yfirvöld á Sri Lanka hafa bannað losun úrgangs á friðlýstum svæðum þar sem fílar hafast við. Banninu er ætlað að draga úr hættunni á því að fílarnir komist í skemmdan og þar af leiðandi hættulegan mat.

Sem skammtímaúrræði hafa stjórnvöld ákveðið að reisa rafmagnsgirðingar umhverfis fleiri en 50 ruslahauga sem standa nærri hinum friðlýstu svæðum.

Samkvæmt yfirvöldum er talið að um 300 dýr sæki í ruslahaugana en bakteríusmitaðar matarleyfarnar eru sagðar ógn við líf og heilsu þeirra.

Héðan í frá verður staðaryfirvöldum meinað að losa úrgang á opnum haugum og verða þess í stað að reisa endurvinnsluver og grípa til annarra öruggari aðferða við sorplosun.

Fjöldi fíla er sagður hafa drepist eftir að hafa innbyrt pólýetýlen á ruslahaugum en sífellt fleiri hjarðir í fæðuleit reiða sig á haugana.

Fílar eru tilbeðnir í búddisma, sem er iðkaður af meirihluta íbúa Sri Lanka. Þá eru skepnurnar verndaðar í lögum. Villtir fílar í landinu eru taldir telja 7.500 en um 200 eru haldnir sem húsdýr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert