Talinn hafa feðrað 20 börn á stofu sinni

Frá Rotterdam.
Frá Rotterdam. Wikipedia/Mauritsvink

Hollenskur dómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að rannsaka megi erfðaefni látins frjósemislæknis sem er grunaður um að hafa notað eigið sæði til að feðra að minnsta kosti 20 börn.

Dómstóllinn í Rotterdam sagði að taka mætti erfðaefni úr persónulegum munum læknisins sem eru í vörslu lögreglu en að ekki mætti greina frá niðurstöðum rannsóknanna fyrr en annar dómstóll hefði tekið afstöðu til þess hvort bera mætti þær saman við sýni úr þeim einstaklingum sem hann er talinn hafa feðrað.

Hópur foreldra og barna heldur því fram að Jan Karbaat kunni að hafa notað eigið sæði til að feðra börn á læknisstofu sinni í Rotterdam, í stað sæðis frá þeim gjöfum sem foreldarnir höfðu valið.

Karbaat, sem lést í apríl 89 ára, er sagður hafa haldið því fram að hann hefði feðrað um 60 börn gegnum glasafrjóvgun en áður en hann dó neitaði hann staðfastlega að bjóða fram erfðaefni til rannsóknar.

Dómstóllinn sem komst að niðurstöðunni í dag sagði að enn sem komið er hefði hópnum ekki tekist að færa fram nægjanleg sönnunargögn til að styðja tilgátu sína. Fjölskyldurnar þyrftu því að höfða nýtt mál og leggja fram frekari sannanir.

Flest börnin fæddust á 9. áratug síðustu aldar eða seinna og vilja þau vita hvort Karbaat er raunverulega faðir þeirra. Lögregla lagði hald á nokkra persónulega muni á heimili læknisins 2. maí sl., þ. á m. tannbursta hans.

Lögmaður Karbaat-fjölskyldunnar hefur lagst harðlega gegn því að erfðaefni læknisins verði prófað og borið saman við erfðaefni barnanna. Segir hann að virða þurfi einkalíf fjölskyldu hans.

Frjósemisstofu læknisins var lokað árið 2009 eftir kvartanir og tvær heimsóknir frá heilbrigðisyfirvöldum. Læknirinn er talinn hafa falsað gögn og upplýsingar um sæðisgjafa og um að hafa brotið reglur sem kveða á um að hver og einn gjafi megi aðeins feðra sex börn.

Í síðasta mánuði leiddu prófanir stofnunarinnar FIOM á erfðaefni eins af lögerfingjum Karbaat í ljós að hann gæti mögulega verið faðir 19 barna sem komu í heiminn eftir glasafrjóvgun.

Ekki liggur fyrir hvort börnin 19 eru meðal þeirra barna sem standa að málsókninni gegn lækninum en önnur rannsókn leiddi í ljós að þrjú barnanna 19 hefðu fæðst eftir meðferð á annarri læknisstofu, þar sem Karbaat var framkvæmdastjóri lækninga í 15 ár.

Karbaat lét af störfum þar árið 1979 vegna deilna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert