„Meiriháttar lögregluaðgerð“ í London

Frá aðgerðum lögreglu í London í kvöld.
Frá aðgerðum lögreglu í London í kvöld. AFP

Lögreglan í Lundúnum hefur brugðist við tilkynningu um sendiferðabíl sem ók á gangandi vegfarendur á London-brúnni í miðborg London.

Vitni segja vopnaða lögreglufulltrúa vera á vettvangi en lögreglan segist vera að sinna „atviki“ sem varð á brúnni. Samgönguyfirvöld í borginni segja að brúnni hafi verið lokað til beggja átta vegna „meiriháttar lögregluaðgerða.“

Fréttin verður uppfærð.

Uppfært kl. 21:48

Blaðamaður BBC sem var á brúnni þegar atvikið átti sér stað segir að karlmaður hafi ekið bílnum á um 80 km/klst hraða. Þá sé verið að hlúa að um fimm manns sem hlutu meiðsli þegar þau urðu fyrir bílnum.

Bíllinn kom akandi í átt frá miðborginni og í átt að suðurbakka árinnar.

Uppfært kl. 21:56

Sést hefur til lögreglu handtaka mann við brúnna. Jones, blaðakona BBC, segir lögreglu hafa handjárnað mann sem var ber að ofan.

Sjúkrabílaþjónusta London segir á Twitter að verið sé að bregðast við atvikinu og hvetur fólk til að forðast svæðið. Fleiri viðbragðsaðilar séu á leið á vettvang.

Uppfært kl. 22:05

Lögreglan er við aðgerðir á brúnni og kveðst meðvituð um færslur á samfélagsmiðlum vegna uppákomunnar en mun greina frá staðreyndum málsins um leið og það verður hægt. Aðal lestarstöðinni við London-brúnna hefur verið lokað og öðrum almenningssamgöngum er beint um aðrar leiðir þar sem lokað er fyrir alla umferð um brúnna.

 Uppfært kl. 22:16:

Þá ræddi blaðamaður BBC við franska konu sem slasaðist á brúnni. Hún segist ekki vita „hverjir hinir tveir séu,“ en lögreglan sé að leita í ánni Thames. „Þau voru rétt við brúnina á brúnni. Það virðist sem að þau hafi mögulega fallið í ána,“ sagði konan sem á þar líklega við fólk sem varð fyrir bílnum. 

Þá hvetur Sadiq Khan, borgarstjóri í London, almenning til að fylgja tilmælum og upplýsingum frá opinberum aðilum, til dæmis lögreglunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert