Fleiri stúlkur of grannar en áður

A4-áskorunin er talin geta hvatt til óheilbrigðrar líkamsímyndar.
A4-áskorunin er talin geta hvatt til óheilbrigðrar líkamsímyndar.

Um ein af hverjum fimm unglingsstúlkum í Frakklandi er of létt. Fjöldi þeirra sem greindur er of grannur hefur skyndilega aukist. Hefur það vakið áhyggjur heilbrigðisyfirvalda sem hingað til hafa aðallega beint spjótum sínum að offituvandanum.

19,6% franskra stúlkna á aldrinum 11-14 ára voru of léttar í rannsókn opinberra yfirvalda sem gerð var árið 2015 eða fimm sinnum fleiri en tíu árum fyrr.

13% allra barna á aldrinum 6-17 ára eru of grönn. Hlutfallið var 8% fyrir áratug.

Niðurstaðan er sögð geta tengst ákveðinni tískubylgju sem kölluð hefur verið „A4 mittisáskorunin“. Þessi „áskorun“ felst í því að ungar stúlkur birta myndir af sér á samfélagsmiðlum þar sem A4-blaði er haldið lóðrétt fyrir framan mittið til að sýna mittismálið. 

Benoit Salanave, greinandi við Sante Publique France, varar við því að ályktanir verði dregnar of fljótt. „Við erum ekki með skýringar, við verðum að skoða þetta nánar,“ segir hann. Hann segir að flestar stúlkurnar sem séu of grannar séu ekki sjúklega grannar. „Þetta er ekki lystarstol.“

Hann benti engu að síður á að heilbrigðisyfirvöld í Frakklandi yrðu að taka niðurstöðurnar alvarlega á tímum þar sem sviðsljósið er aðallega á þeim sem eru of þungir.

Frakkar segja að tilfellum offitu hafi ekki fjölgað síðasta áratuginn. Um 17,2% fullorðinna þjáðust af offitu árið 2015 samanborið við 16,9% fyrir áratug. 3,9% barna á aldrinum 6-17 voru með offitu árið 2015 og 16,9% þeirra voru of þungir. 

Rannsóknin var birt í The New England Journal of Medicine í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert