Fluttur í dái frá Norður-Kóreu

Otto Frederick Warmbier les játningu í sjónvarpsútsendingu í fyrra. Talið …
Otto Frederick Warmbier les játningu í sjónvarpsútsendingu í fyrra. Talið er líklegt að hann hafi verið þvingaður til að flytja ávarpið og játa. AFP

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa látið ungan, bandarískan karlmann lausan úr haldi. Þetta staðfestir utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Otto Warmbier er 22 ára. Hann var í mars í fyrra dæmdur til fimmtán ára þrælkunar í Norður-Kóreu, sakaður um að hafa reynt að stela áróðursskilti frá hóteli. 

Rex Tillerson utanríkisráðherra segir að Warmbier sé nú á leið til Bandaríkjanna til fjölskyldu sinnar í Cincinnati í Ohio. Wasthington Post hefur eftir föður hans að hann hafi verið fluttur frá Norður-Kóreu í dái. Blaðið segir að foreldrar Warmbier hafi fengið þær upplýsingar að hann hefði fengið bótúlíneitrun skömmu eftir að hann var hnepptur í varðhald fyrir fimmtán mánuðum í Norður-Kóreu. Um sjaldgæfan sjúkdóm sem veldur lömun er að ræða. Honum var gefið svefnlyf og hefur verið í dái allar götur síðan. 

„Sonur okkar er á leiðinni heim,“ hefur Washington Post eftir Fred Warmbier, föður Ottos. Foreldrarnir munu fá að sjá son sinn í kvöld.

Otto Warmbier var á ferðalagi í Norður-Kóreu er hann var handtekinn 2. janúar í fyrra. Skömmu síðar var játningu hans sjónvarpað þar sem hann sagðist hafa reynt að taka skilti sem minjagrip fyrir bandaríska kirkju. „Markmið mitt var að skaða kóresku þjóðina,“ sagði hann í játningu sinni.

Þvinguð játning?

Ekki er ljóst hvort að hann gaf yfirlýsinguna af fúsum og frjálsum vilja en áður hafa komið upp tilvik þar sem útlendingar í haldi norðurkóreskra stjórnvalda hafa verið þvingaðir til að játa á sig glæpi. 

Um tveimur mánuðum eftir handtökuna var Warmbier dæmdur til fimmtán ára þrælkunarvinnu fyrir glæpi gegn ríkinu.

Í frétt BBC um málið kemur fram að Warmbier hafi verið látinn laus úr haldi skömmu eftir að bandaríski körfuknattleiksmaðurinn Dennsi Rodman kom til Norður-Kóreu. Ekki er vitað hvort að tengsl séu þarna á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert