Fjölbýlishús í ljósum logum

AFP

Rúmlega 200 slökkviliðsmenn hafa í nótt barist við að slökkva eld sem kom upp í íbúðablokk í vesturhluta London, höfuðborg Bretlands, skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma. Fjörutíu slökkviliðsbílar voru sendir á staðinn og tuttugu sjúkrabílar. Staðfest hefur verið að nokkrir einstaklingar hafi látið lífið en ekki liggur fyrir nákvæm tala yfir það.

Fréttir hafa borist af því að fólk komist ekki út úr byggingunni sem heitir Grenfell Tower og er 24 hæðir samkvæmt frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph. Þrjátíu að minnsta kosti hafa verið fluttir á sjúkrahús með meiðsli. Talið er að nokkur hundruð manns hafi verið í byggingunni þegar eldurinn kom upp en ekki mun vera vitað um allt fólkið.

Haft er eftir sjónarvottum að þeir hafi heyrt fólk öskra á hjálp þegar eldurinn hafi breiðst út um bygginguna en 120 íbúðir eru í henni. Einnig að fólk hafi sést á efri hæðum hússins með vasaljós og farsíma til þess að reyna að vekja athygli á sér. Sjónarvottar hafa einnig sagt að einhverjir hafi stokkið út um glugga hússins. Svæðið hefur verið girt af.

AFP

Varað hafði verið við því að öryggismálum í íbúðablokkinni væru ekki í lagi. Þannig væri aðeins einnútgangur úr byggingunni á meðan viðgerðir stæðu yfir á henni. Erfitt væri fyrir viðbragðsaðila að komast að henni og samkvæmt viðbragðsáætlun hússins væri íbúum ráðlagt að halda kyrru fyrir í íbúðum sínum ef upp kæmi eldur í byggingunni.

Aðgerðahópur, sem lætur sig öryggismál á svæðinu varða, setti þessa gagnrýni fram í nóvember á síðasta ári. Þar sagði ennfremur að hópurinn hefði talað fyrir daufum eyrum og líklega þyrfti einhvern hræðilegan atburð, sem væri aðeins tímaspursmál, til þess að vekja fólk til umhugsunar um þá hættu sem íbúar hússins byggju við. 

AFP

Haft er eftir íbúa hússins að áður hafi komið upp eldur í íbúðablokkinni en hann hafi aldrei breiðst út með þessum hætti. Einhverjir af íbúunum hafa fullyrt að brunavarnakerfi hússins hafi ekki farið í gang. Fólk hefur sagt frá því að það hafi verið vakið af nágrönnum sínum og gert viðvart um eldinn eða vaknað fyrir tilviljun og áttað sig á stöðunni.

Eldsupptök eru óljós segir í fréttinni en óttast er að byggingin kunni að hrynja. Um 30 íbúðir í nágrenninu hafa verið rýmdar í öryggisskyni. Aðstæður til slökkvistarfs eru erfiðar. Fólk í nágrenninu hefur komið á staðinn með fatnað og annað til þess að hlúa að íbúum hússins sem tókst að komast út úr því. Óstaðfest er hversu mörgum tókst það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert