Hinir látnu voru að sækja börnin sín

AFP

Heimatilbúinni sprengju var beitt þegar sprenging varð við inngang leikskóla í austurhluta Kína í gær með þeim afleiðingum að átta létu lífið og tugir særðust. Árásarmaðurinn, 22 ára gamall karlmaður, er á meðal hinna látnu segir í frétt AFP.

Fram kemur í fréttinni að maðurinn hafi átt við heilsufarsvandamál að stríða og hafi haft á leigu íbúð í nágrenni leikskólans. Sprengingin átti sér stað um það leyti sem foreldrar voru að sækja börnin sín og þau voru á leið út úr byggingunni.

Lögreglan fann búnað til þess að búa til heimagerða sprengju í íbúð mannsins. Ritað hafði verið orðin „deyðu“, „dauði“ og „eyðileggja“ á veggi hennar. Maðurinn hafði hætt í skóla og var atvinnulaus. Ekki er vitað hvert tilefni árásarinnar var.

Tveir hinna látnu létust í sprengingunni en sex aðrir af sárum sínum á sjúkrahúsi. Samtals særðust 65 manns í árásinni. Hvorki börn né kennarar létust í árásinni en talið er að allir hinir látnu hafi verið foreldrar að bíða eftir börnum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert