Árás við mosku í London

Lögreglan stendur vörð við Finsbury Park .
Lögreglan stendur vörð við Finsbury Park . AFP

Einn lést og tíu særðust þegar sendibifreið var ekið á gangandi vegfarendur skammt frá mosku í norðurhluta London skömmu eftir miðnætti í nótt. 48 ára gamall maður er í haldi lögreglu vegna árásarinnar.

Sendibílnum var ekið inn í hóp á fólki á gangstétt við Seven Sisters Road, skamm frá FinsburyPark moskunni við sömu götu, samkvæmt frétt BBC.

Múslímar á bæn við Finsbury Park eftir árásina í nótt.
Múslímar á bæn við Finsbury Park eftir árásina í nótt. AFP

Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, segir að lögreglan rannsaki málið eins og tilraun til hryðjuverkaárárásar.

Ráð múslíma í Bretlandi segir að bifreiðinni hafi verið ekið viljandi inn í hóp múslíma. Hryðjuverkadeild lögreglunnar er á staðnum og fer með rannsókn málsins. Flestir þeirra sem urðu fyrir árásinni voru að koma frá kvöldbænum að lokinni föstu á Ramadan.

Ráð múslíma telur að árásin sé verk múslímahatara og hefur óskað eftir því að lögregla auki eftirlit við moskur landsins.

Abdul Rahman, sem varð vitni að árásinni, segir í samtali við BBC að bílstjórinn hafi sagt að hann vildi drepa alla múslíma. Rahman segir að þegar maðurinn kom út úr sendibílnum hafi hann reynt að flýja af vettvangi og sagði: „Ég vil drepa alla múslíma. Ég vil drepa múslíma.“

Rahman segist hafa náð að kýla hann í magann og svo hafi hann ásamt fleirum náð taki á árásarmanninum og haldið honum þangað til lögregla kom á vettvang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert