Tveir blaðamenn létust í Mósúl

Tveir fréttamenn létust þegar jarðsprengja sprakk í borginni Mósúl í Írak í gær. Annar var franskur ríkisborgari og hinn íraskur. Harðir bar­dag­ar hafa geisað í og við Mósúl síðustu daga í tilraunum írask­ra her­sveita til að ná aft­ur hluta borg­ar­inn­ar þar sem hið svo­nefnda Ríki íslams hef­ur ráðið lög­um og lof­um. BBC greinir frá. 

Stephan Villeneuve myndatökumaður og Bakhtiyar Haddad, aðstoðarmaður hans, voru að taka upp fréttefni af bardaganum fyrir frönsku sjónvarpsstöðina 2 TV þegar þeir létust. Í sömu árás slösuðust tveir aðrir franskir blaðamenn og annar þeirra alvarlega.  

Írak er efst á lista yfir þau lönd í heimi þar sem hættulegast er fyrir blaða- og fréttamenn að starfa. Frá árinu 2014 hafa 27 blaðamenn, bæði menntaðir og ómenntaðir, verið myrtir í Írak samkvæmt upplýsingum frá samtökum Blaðamanna án landamæra (RSF).  

Gengur hægt en örugglega

Sókn sér­sveit­a hers­ins og lög­regl­unn­ar inn í borgina Mósúl hefur gengið hægt en örugglega, að sögn Abdulghani al-Assadi, yfirmanns hersveitanna, við AFP-fréttaveituna. Þeir nálgast borgina úr suðri og norðri. Þegar hafa hersveitirnar náð sjúkrahúsi í norðurhluta borgarinnar á sitt vald. 

„Við stöndum frami fyrir mörgum hindrunum. Landsvæðið sjálft, vegirnir og fjöldi íbúanna í borginni hægja á starfinu og setja okkur skorður,“ segir al-Assadi.  

Um 400 almennir borgarar höfðu náð að komast út úr elsta hluta borgarinnar á mánudaginn. Hins vegar er talið að um 100 þúsund almennum borgurum sé haldið föngnum úti á götum borgarinnar á meðan liðsmenn Ríkis íslams verjast af krafti gegn íraska hernum.  

Íraskur hermaður að störfum í borginni Mósúl í Írak.
Íraskur hermaður að störfum í borginni Mósúl í Írak. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert