Tilboð Breta „góð byrjun“

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, á …
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, á fundi leiðtogaráðs ESB í dag. AFP

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, sagði í dag að tilboð Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um að veita ríkisborgurum annarra ríkja Evrópusambandsins sem búsettir eru í Bretlandi sömu réttindi og Bretar eftir að landið gengur úr sambandinu, vera „góða byrjun“ á viðræðum um útgönguna samkvæmt frétt AFP.

Merkel lagði þó áherslu á að meira þyrfti að koma til. May kynnti tilboð sitt á fundi með leiðtogum ríkja Evrópusambandsins í Brussel í dag. „Þetta er góð byrjun en það eru auðvitað enn margar, margar aðrar spurningar. Vísaði hún meðal annars til landamæranna á milli Írlands og Norður-Írlands og fleiri mála sem leysa þyrfti.

Tilboð May snýst um að umræddir ríkisborgarar ríkja Evrópusambandsins fái sama aðgang að heilbrigðiskerfi Bretlands, menntakerfinu og velferðarkerfinu almennt og Bretar. Hún hefur hins vegar hafnað því að Evrópudómstóllinn, æðsti dómstóll sambandsins, verði fengið úrskurðarvald í mögulegum ágreiningsmálum því tengdum.

Meirihluti breskra kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir ári að segja skilið við Evrópusambandið og hafa bresk stjórnvöld unnið að því síðan. Stefnt er að því að Bretar yfirgefi sambandið í mars 2019. Formlegar viðræður um útgönguna á milli breskra stjórnvalda og Evrópusambandsins hófust síðasta mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert