Kviknaði í út frá ísskáp

AFP

Eldurinn í Grenfell-turninum í London kviknaði út frá ísskáp. Auk þess stóðst klæðning utan á turninum ekki öryggiskröfur, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í London en 79 manns létu lífið í eldsvoðanum í síðustu viku.

Lögreglan íhugar hvort einhverjir verði ákærðir fyrir manndráp vegna þess að einangrunarefni hafi ekki staðist öryggisprófanir. Lögregla segir ennfremur að ekki hafi verið um íkveikju að ræða.

„Ég vil ekki að það séu einhver fórnarlömb þessa harmleiks sem við vitum ekki af,“ sagði Fiona McCormack, yfirmaður hjá lögreglunni. Hún hvatti alla sem hefðu verið í turninum til að láta vita af sér, óháð því hver ástæða þeirra fyrir verunni var.

AFP

„Forgangsverkefni okkar eru að skilja hverjir voru í turninum. Við höfum engan áhuga á því að vita af hverju fólk var þar,“ bætti McCormack við.

Ísskápurinn sem orsakaði eldsvoðann er af gerðinni Hotpoint FF175BP. Framleiðandi og yfirvöld hafa verið látin vita en um 250 manns hafa unnið að því að reyna að komast að því hvað gerðist.

McCormack sagðist ekki búast við því að rannsókn á eldsupptökum yrði lokið fyrr en í lok ársins. 

Frétt BBC.

Grenfell-turninn.
Grenfell-turninn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert