Fyrsta konan í lífvarðasveit drottningar

Lífverðir drottningar þekkjast á svörtum og rauðum búningum sínum, en …
Lífverðir drottningar þekkjast á svörtum og rauðum búningum sínum, en Couto verður fyrsta konan til að sinna starfinu. AFP

Nafn hinnar 24 ára gömlu Megan Couto mun á mánudag fara í sögubækurnar, en þá verður hún fyrsta konan í sögu Buckingham-hallar í London, höfuðborg Bretlands, til að ganga í raðir lífvarða Bretadrottningar.

Á þeim 180 árum sem hermenn hafa staðið vörð um höllina hefur engin kona verið þar á meðal. Couto verður vígð inn í lífvarðasveitina á mánudag, og mun standa vörð fyrir utan höllina í hinum víðfræga svarta og rauða búningi.

Couto hefur sinnt þjónustu fyrir kanadíska herinn í sjö ár, en hún kemur úr röðum kanadíska fótgönguliðs Princess Patriciu (2PPCLI). Hún mun fylla sæti Jasons Hudson majórs sem stýrt hefur lífvarðasveitinni, en í samtali við Daily Telegraph segir hann Couto ítrekað hafa sannað sig.

„Þetta er mikill heiður, eins og fyrir alla þá sem fá að ganga í raðir lífvarðasveitar drottningar,“ sagði Couto í viðtalinu. „Ég er að sinna minni skyldu en á sama tíma veit ég að þetta er einstakt tækifæri sem ég er mjög þakklát fyrir.

Á þeim sjö árum sem hún hefur sinnt þjónustu fyrir kanadíska herinn segist hún aldrei hafa fundið fyrir því að vera í minnihluta sem kona. „Það er komið fram við mig eins og hvern annan fótgönguliða: ef ég vinn vinnuna mína vel er mér launað fyrir það en ef ég klúðra einhverju þá fæ ég leiðsögn,“ segir hún.

Couto tekur þátt í skiptingu lífvarða fyrir utan höllina á mánudag klukkan 11.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert