Ísrael gerði loftárás á Sýrland

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Herflugvélar frá Ísrael gerðu í dag loftárásir í Sýrlandi eftir að tíu eldflaugum var skotið þaðan á Gólanhæðirnar sem hernumdar eru af Ísraelsher. Gerðu herflugvélarnar meðal annars árás á tvo skriðdreka á vegum sýrlenska stjórnarhersins í norðurhluta hæðanna.

Fram kemur í frétt AFP að samkvæmt upplýsingum frá ísraelska hernum varð ekkert manntjón í eldflaugaárásinni. Stjórnvöld í Ísrael hafa komið á framfæri mótmælum á vattvangi Sameinuðu þjóðanna sem sjá um að framfylgja vopnahléinu á milli Sýrlands og Ísraels sem komið var á árið 1974. Tæknilega séð eiga löndin tvö enn í stríði.

Sýrlensk stjórnvöld hafa í kjölfarið sakað Ísrael um að styðja við uppreisnarmenn í Sýrlandi. Mannréttindasamtök segja að tveir sýrlenskir hermenn hafi fallið í árás Ísraelshers. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, varaði við því í dag að Ísraelsher myndi svarað af hörku öllum árásum frá Sýrlandi. Sama hver stæði á bak við þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert