Myrti fimm með of stórum skömmtum

Regan Nichols er ákærð fyrir að hafa banað fimm manns.
Regan Nichols er ákærð fyrir að hafa banað fimm manns. Ljósmynd/Lögreglustjórinn í Oklahoma

Ríkissaksóknari Oklahoma-ríkis Bandaríkjanna hefur ákært 67 ára kvenkyns lækni fyrir fimm morð. Hún er sökuð um að hafa skrifað upp á hættulega mikið magn lyfja til sjúklinga sinna án þess að þeir þyrftu á að halda sem er talið hafa leitt til andláts að minnsta kosti fimm einstaklinga.

Í ákærunni sem var lögð fram í gærmorgun á hendur Regan Nichols, bein- og liðskekkjulækni (e. osteopathy), kemur fram að fórnarlömb hennar hefðu öll látið lífið á árunum 2010 til 2013 og voru á aldrinum 21 árs til 55 ára. Talið er að allir fimm hafi látist af völdum lyfblöndueitrunar.

Í frétt ABC News um málið segir að þrjú fórnarlamba hennar hefðu fengið banvæna og ávanabindandi lyfjakokteila sem innihéldu m.a. Hydrocodone, Oxycodone, Alprazolam og Carisoprodol. Misnotkun ópíóðalyfja hefur verið til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum en talið er að rekja megi fjölda dauðsfalla til neyslu slíkra lyfja.

Á tæplega fimm ára tímabili mun Nichols hafa skrifað upp á þrjár milljónir skammta af hættulegum lyfseðilskyldum lyfjum og létu tíu sjúklingar hennar lífið á tímabilinu vegna of stórs skammts. 

Það var ekki fyrr en árið 2014 að yfirvöld urðu varir við undarlega starfshætti Nichols, en það var eftir að fyrrverandi sjúklingur hennar tilkynnti hana til yfirvalda. Rannsókn á henni hófst í október 2014 og var hún svipt réttinum til að ávísa hættulegum lyfjum í fimm ár.

Frétt ABC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert