Talin af en fannst á lífi

Myndir af fólki sem lýst er eftir í kjölfar eldsvoðans …
Myndir af fólki sem lýst er eftir í kjölfar eldsvoðans í Grenfell-turninum. AFP

Kona sem óttast var að hefði brunnið inni í eldsvoðanum í Grenfell-turninum í London hefur fundist á lífi. Hún var eitt þeirra fórnarlamba sem flutt voru slösuð á sjúkrahús. 

Óttast var að Fadumo Ahmed væri látin þar sem hún bjó á 19. hæð turnsins og hringdi í örvæntingu í móður sína um nóttina er húsið stóð í björtu báli. Í símtalinu kvaddi hún móður sína enda taldi hún enga möguleika á því að hún kæmist út á lífi. „Ég kemst ekki út. Bless.“

Vinir hennar og nágrannar höfðu lýst eftir Ahmed og myndir af henni voru hengdar upp víða. 

Í frétt Telegraph um málið segir að í ljós hafi nú komið að Ahmed liggur á sjúkrahúsi. Nánasta fjölskylda hennar hafði þá vitneskju en ekki vinir og nágrannar sem leituðu hennar. 

Ahmed fannst meðvitundarlaus á 18. hæð Grenfell-turnsins. Slökkviliðsmenn náðu að koma henni út úr byggingunni.

„Slökkviliðsmaður er hetja. Hann bjargaði lífi hennar, það er svo einfalt. Annars hefði hún ekki komist út,“ segir móðirin í samtali við Telegraph.

Ahmed er á batavegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert