Fá skjól á „Ekknahæð“

Hópur afganskra kvenna hefur sest að fyrir utan höfuðborg landsins, Kabúl. Í kringum aldamótin settist sú fyrsta þar að og fleiri fylgdu í kjölfarið. Í dag er svæðið kallað „Ekknahæð“. Alls búa þar um fimm hundruð ekkjur með börn sín. 

Ástæðan fyrir því að Bibi ul-Zuqia settist þar að á sínum tíma var há húsaleiga í höfuðborginni. Eins sú vanvirðing sem ekkjur þurfa að þola í afgönsku samfélagi. 

Bibi ul-Zuqia lést í fyrra en dóttir hennar, Anissa Azimi, segir að móðir hennar hafi sest þarna að ásamt fimm börnum eftir að hafa lent í fjárhagserfiðleikum. Fyrri eiginmaður Bibi ul-Zuqia lést í eldflaugaárás. Hún giftist síðar mági sínum en hann veiktist og lést. Hún reyndi að sjá fyrir sér og börnum sínum með því að þvo þvotta fyrir aðra en húsaleigan var að sliga fjölskylduna.

Á hæðinni, sem heitir réttu nafni Zanabad, var hins vegar hægt að kaupa ódýrt land. Þegar fyrstu fjölskyldurnar settust þar að var hæðin í 15 km fjarlægð frá Kabúl en vegna þess hvað borgin hefur þanist út er Zanabad nú úthverfi hennar. 

Fleiri ekkjur fylgdu í kjölfarið og þær hvöttu aðrar ekkjur til þess að slást í hópinn. „Aðalmálið var að fá ódýran og öruggan stað til þess að setjast að til frambúðar,“ segir Anissa sem býr ásamt fjölskyldu sinni á Ekkjuhæð þrátt fyrir að eiga eiginmann.

Fljótlega varð hæðin að draumastað örvæntingarfullra kvenna sem höfðu misst eiginmenn sína. Bibi ul-Zuqia skipulagði alls konar námskeið fyrir íbúana. Til að mynda lestrar- og saumanámskeið. Eins annaðist hún matarúthlutun með stuðningi frá hjálparsamtökum til þeirra sem þurftu á aðstoð að halda.

Frá föður til eiginmanns

Konur eru oft álitnar eign feðra sinna fram á fullorðinsár þegar þær verða eign eiginmanna sinna. Ekkjur eru hins vegar utangarðs og hafnað af samfélaginu sem álítur þær byrði. Þær verða oft fyrir ofbeldi og stundum eru þær jafnvel þvingaðar í hjónaband með einhverjum úr fjölskyldu mannsins sem þær voru giftar.

Lítil herstöð er starfandi við hæðina og hermennirnir þar gæta íbúanna. „Það er gott að vita af verndinni enda talibanar ekki langt undan,“ segir Anissa.

En konurnar í Zanabad hafa lært af biturri reynslu að þær geta ekki alltaf treyst yfirvöldum. Anissa minnist þess þegar lögreglan kom á svæðið til þess að rífa niður húsin sem ekkjurnar höfðu reist í sameiningu með blóði, svita og tárum. Eina leiðin var að greiða lögreglunni mútur til þess að fá frið. 

„Þeir eyðilögðu húsið okkar átta eða níu sinnum,“ segir Anissa. sem er sjálf lögreglumaður í dag. „Eina leiðin var að greiða þeim pening sem við gerðum að lokum.“

2,5 milljónir ekkja í Afganistan

Áætlað er að um 2,5 milljónir ekkja séu í Afganistan í dag. Margar þeirra eru ómenntaðar og einangraðar á heimilum sínum því konum bjóðast færri tækifæri en körlum við andlát maka. 

Ef eiginmaður þeirra hefur látist í bardaga fá þær 150 Bandaríkjadali, sem svarar til 15.600 króna, á ári í bætur frá ríkinu. Þær komast af með því að taka að sér alls konar heimilisstörf fyrir aðra og senda börnin á markaði til að betla.

Í Afganistan er það þannig að karlar sjá yfirleitt fyrir konum fjárhagslega og það er mjög erfitt fyrir konur að missa þann stuðning, segir talsmaður kvenna í stjórnarráði Afganistan, Kobra Rezai.

Við konungshöllina fyrrverandi í Kabúl hafa Sameinuðu þjóðirnar komið upp sameiginlegum matjurtagarði sem um 100 fátækar konur rækta. 80% þeirra eru ekkjur. Sumar þeirra eiga sér skelfilega sögu.

Neyddist til þess að gefa 13 ára dóttur í hjónaband

Marghooba Jafary er 35 ára gömul ekkja með fjögur börn. Hún neyddist til þess að gefa 13 ára gamla dóttur sína í hjónaband með fertugum karli. Ástæðan var sú að hún gat ekki fætt hana. Tengdasonurinn hefur hins vegar yfirgefið stúlkuna og skilið hana eftir í sárri fátækt.

Sextán ár eru liðin síðan talibanar voru hraktir frá völdum í Afganistan en þar geisa enn átök. Í fyrra voru yfir 11.500 borgarar drepnir og á þriggja mánaða tímabili í vetur voru 800 lögreglumenn og hermenn drepnir við skyldustörf.

Nawzi Fakiri, sem hefur verið ekkja frá tímum Baba Karmal – sem var forseti Afganistan 1979 til 1986, hefur tekið að sér eina ekkju, Nouria, og börnin hennar fimm. Fjölskyldan flúði frá borginni Kunduz eftir að hafa orðið fyrir árás talibana síðasta sumar. En hún fékk skjól hjá Fakiri í Zanabad. Nouria aðstoðar Fakiri við heimilisstörfin en hún er nánast blind. Þannig gengur lífið fyrir sig á Ekknahæð. Konurnar styðja hver aðra og lifa í sátt og samlyndi án afskipta karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert