Hertar lögregluaðgerðir í Árósum

Lögreglan að störfum í Árósum.
Lögreglan að störfum í Árósum. AFP

Klukkan 19 í kvöld verður komið á sérstöku eftirlitssvæði lögreglunnar í vesturhluta Árósa í Danmörku. Í gær kom til skotbardaga í borginni milli glæpagengja en harka hefur færst í átök þeirra að undanförnu. Innan svæðisins verður viðbúnaður lögreglunnar sérstaklega mikill og hefur hún heimild til að leita á fólki, í töskum þess og í bílum. Leitað er vopna sem eru í umferð í þessari næststærstu borg Danmerkur.

„Skotárásir í Árósum eru með öllu óásættanlegar,“ segir yfirlögregluþjónninn Klaus Arboe Rasmussen í samtali við danska ríkissjónvarpið. „Við verðum að stöðva þær. Við erum með mikinn viðbúnað í Árósum og eftirlitssvæðið er þáttur í aðgerðum okkar gegn þessum gengjum.“

Lögreglan segir að enn séu vopn í umferð í borginni og að þeirra sé nú leitað. „Til að finna þau höfum við komið á eftirlitssvæði.“

Svæðið er nokkrir ferkílómetrar að stærð og nær yfir hverfin Brabrand, Grimhøj og Skjoldhøj. Þá nær það einnig til hluta Åbyhøj-hverfisins.

Innan svæðisins getur lögreglan leitað á fólki, rannsakað klæðnað þeirra, bíla, töskur og svo framvegis, án þess að hafa rökstuddan grun um glæpsamlegt athæfi, í þeim tilgangi að finna vopn. Aðgerðirnar verða í gildi til 24. júlí eða í einn mánuð.

Vilja koma sér fyrir í Árósum

Lögreglan segir að átök gengjanna megi rekja til þess að þekktur glæpahópur frá Kaupmannahöfn sé að reyna að koma sér fyrir í Árósum. Hópurinn kallar sig Loyal to Familia. Annar hópur, sem hefur tengsl við samtök sem kalla sig Black Army, vill koma í veg fyrir að Kaupmannahafnargengið nái að festa rætur í Árósum. Frá því í maí hefur ítrekað komið til átaka milli gengjanna þar sem oft hefur verið hleypt af skotum. Þá hefur verið ekið viljandi á tvær manneskjur. 

Lögreglan hefur framkvæmt yfir hundrað handtökur á þessu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert