Lokað á fjölskylduflutninga eftir Brexit

Ríkisstjórn Bretlands hefur tilkynnt að vilji innflytjendur frá löndum Evrópusambandsins …
Ríkisstjórn Bretlands hefur tilkynnt að vilji innflytjendur frá löndum Evrópusambandsins fá til sín fjölskyldur sínar þurfi það að gerast áður en Brexit tekur gildi. AFP

Ríkisstjórn Bretlands greindi frá því í dag að innflytjendur sem koma frá löndum innan Evrópusambandsins geti ekki fengið fjölskyldur sínar til landsins eftir Brexit.

Þetta staðfesti Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, eftir að hún neitaði að samþykkja beiðni Evrópusambandsins um að leyfa innflytjendum að fá til sín fjölskyldur sínar eftir Brexit. Munu fjölskyldumeðlimir þurfa að lúta sömu reglum og aðrir innflytjendur.

Sky greindi frá því að auk þess hefur ríkisstjórnin tilkynnt að Evrópudómstóllinn muni ekki hafa lögsögu í landinu. Evrópskir ríkisborgarar sem hafa aðsetur í Bretlandi þurfi að fara í gegnum breskt réttarkerfi.

Rædd verða á næstu vikum réttindi þeirra 3,2 milljóna evrópskra ríkisborgara sem búsettir eru í Bretlandi auk rúmrar milljónir Breta sem búa víðs vegar um Evrópu.

Innflytjendur sem búið hafa í Bretlandi í meira en fimm ár geta sótt um að fá „fast aðsetur“ (e. settled status) sem tryggir þeim sömu réttindi og breskir ríkisborgarar njóta. Eru þeim gefin tvö ár frá því að Brexit tekur gildi til þess að senda inn umsókn. Þeir sem flytja til landsins eftir þann tímaramma geta ekki búist við því að fá fast aðsetur í landinu.

Utanríkisráðuneytið greindi frá því í dag að yfirvöld muni auka starfsemi sína til þess að vinna úr umsóknunum en þau hafa gefið sér tvö ár til þess. Gæti það þýtt meira en 4.000 umsóknir á dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert