Philippe úrskurðar í „eitraðri“ deilu

Býfluga.
Býfluga. AFP

Edouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands, hefur gripið inn í deilur umhverfisráðherra og landbúnaðarráðherra landsins og ákveðið að bann gegn skordýraeitrum sem skaða býflugur taki gildi árið 2018.

Bannið er hluti af lögum sem voru samþykkt árið 2016 og er ætlað að standa vörð um líffræðilegan fjölbreytileika. Því hefur verið harðlega mótmælt af kornframleiðendum og þeim sem rækta sykurrófur, en þeir draga í efa niðurstöður rannsókna sem hafa sýnt fram á skaðvænleg áhrif umræddra eiturefna á býflugur.

Landbúnaðarráðherrann Stephane Travert hefur barist gegn banninu og kvartað undan því að það gangi lengra en Evrópulög. Þannig hefur hann gefið í skyn að franskir framleiðendur muni standa höllum fæti gegn keppinautum sínum ef bannið tekur gildi.

Umhverfisráðherrann Nicolas Hulot, fyrrverandi aðgerðasinni og sjónvarpsmaður, segist hins vegar ekkert munu gefa eftir þegar kemur að heilsu fólks en franska matvælastofunin Anses mun gefa út skýrslu um áhrif efnanna á heilsu manna fyrir árslok.

Forsætisráðherrann skar á hnútinn í dag þegar hann ákvað að bannið tæki gildi 1. september 2018, líkt og fyrrnefnd lög kveða á um.

Umrædd efni, svokölluð neonicotinoids, eru skyld nikótíni og hafa áhrif á taugakerfi skordýranna. Samkvæmt rannsóknum hafa þau skaðvænleg áhrif á æxlun býflugna og trufla minni þeirra og ratvísi. Þá hafa efnin áhrif á ónæmiskerfi býfluganna.

Fulltrúar bænda segja hins vegar enga aðra hagkvæma valkosti í boði og framleiðendur efnanna segja þau örugg ef þau eru notuð rétt. Þá segja þeir fyrrnefndar rannsóknir byggja á veikum grunni.

Um 20.000 býflugnategundir koma að frjóvgun 90% 107 helstu nytjaplantna heims.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert