Vilja afgreiða Trumpcare fyrir vikulok

Tugir milljóna Bandaríkjamanna til viðbótar verða ótryggðir árið 2026 ef …
Tugir milljóna Bandaríkjamanna til viðbótar verða ótryggðir árið 2026 ef frumvarp Repúblikanaflokksins nær fram að ganga. AFP

22 milljónir Bandaríkjamanna til viðbótar verða án sjúkratrygginga árið 2026 ef nýtt heilbrigðisfrumvarp Repúblikanaflokksins verður að raunveruleika. Þessi niðurstaða fjárlagaskrifstofu bandaríska þingsins (CBO) þykir mikið áfall fyrir repúblikana, sem þegar eru klofnir í afstöðu sinni til löggjafarinnar.

Það var Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, sem lagði frumvarpið fram í síðustu viku en það hefur þegar mætt mikilli andstöðu innan flokksins þrátt fyrir bjartsýnisyfirlýsingar Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Repúblikanar hafa unnið að því dag og nótt að komast að samkomulagi um löggjöf sem getur komið í staðinn fyrir Obamacare, sem þeir hafa ítrekað sagt handónýta. Demókratar hafa sameinast í andstöðu sinni og því ljóst að repúblikanar verða að þétta raðirnar til að ná markmiðum sínum.

McConnell sagðist vilja freista þess að afgreiða frumvarpið í þessari viku, áður en þingmenn halda í stutt frí, en hefur verið gagnrýndur af sumum flokksbræðra sinna fyrir hinn stutta frest.

Trump er kokhraustur að vanda.
Trump er kokhraustur að vanda. AFP

Skýrsla fjárlagaskrifstofunnar verður líklega ekki til þess að draga úr ágreiningi innan flokksins. Frumvarpið er nefnilega litlu betra en það sem lagt var fram í fulltrúadeildinni en samkvæmt því verða 23 milljónir Bandaríkjamanna ótryggðar árið 2026, til viðbótar við þá sem eru enn ótryggðir í dag.

Þá dragast útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála saman um 321 milljarð dala á tímabilinu 2017-2026 samkvæmt nýja frumvarpinu en það er 200 milljarða dala aukning frá fulltrúadeildarfrumvarpinu.

Samkvæmt CBO mun afnám þess ákvæðis sem skyldar fólk til að kaupa sjúkratryggingu verða til þess að 15 milljónir manna sem tryggðar eru í dag verða án tryggingar strax á næsta ári. Þá munu iðgjöld einstaklinga hækka um 20% þar sem breytingin mun verða til þess að færri heilbrigðir einstaklingar tryggja sig.

Hvíta húsið hefur þegar hafnað niðurstöðum fjárlagaskrifstofunnar og vísað til „sögulegrar ónákvæmni“ hennar.

Efasemdir meðal repúblikana

Fimm öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins höfðu þegar lýst yfir andstöðu sinni við frumvarpið áður en niðurstöður CBO lágu fyrir. Fleiri hafa lýst yfir áhyggjum, ekki síst vegna aðfarar frumvarpsins gegn Medicaid, sem sér fátækum og fötluðum fyrir heilbrigðisþjónustu.

Þrjátíu og eitt ríki hefur aukið umfang Medicaid þannig að kerfið nái til þeirra sem eru allt að 38% fyrir ofan fátækramörk.

Þrátt fyrir fjölmargar hindranir í veginum tísti Donald Trump í dag að repúblikanar ynnu að því hörðum höndum að tryggja nauðsynleg atkvæði.

Trump átti „yfirgripsmiklar“ samræður við nokkra öldungadeildarþingmenn um helgina, m.a. Ted Cruz, Rand Paul og Ron Johnson. Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, sagði breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu og forsetinn væri ánægður með þróun mála.

Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi verður gripið til skattaafsláttakerfis til að gera fólki kleift að kaupa sjúkratryggingu og þá verður ríkjum heimilað að fella úr gildi skilyrði um að tryggingarnar nái til þátta á borð við mæðravernd og neyðarþjónustu.

Þar sem repúblikanar hafa aðeins nauman meirihluta í öldungadeildinni, 52 gegn 48, má McConnell aðeins við tveimur liðhlaupum. Honum nægja jöfn atkvæði, þar sem varaforsetinn Mike Pence hefði úrslitavaldið.

Mitch McConnell vill helst klára málið í vikunni, þrátt fyrir …
Mitch McConnell vill helst klára málið í vikunni, þrátt fyrir töluverða andstöðu í eigin flokki. AFP

„Ófullnægjandi og óframkvæmanlegt“

Því miður fyrir McConnell hafa efasemdirnar um frumvarpið aukist, sérstaklega í þeim ríkjum sem þegar hafa útvíkkað Medicaid. Öldungadeildarþingmaðurinn Bill Cassidy frá Louisiana segist óákveðinn og leiðtogi demókrata í öldungadeildinni segir niðurstöður CBO sýna að frumvarpið sé alveg jafn-„andstyggilegt“ og fulltrúadeildarfrumvarpið.

„Trumpcare mun leiða til aukins kostnaðar og minni þjónustu og til þess að tugir Bandaríkjamanna verða ótryggðir,“ segir Chuck Schumer. Hann segir skýrslu CBO stöðvunarskyldumerki fyrir Repúblikanaflokkinn.

Meðal gagnrýnenda frumvarpsins eru einnig að minnsta kosti þrír ríkisstjórar úr röðum repúblikana; í Arizona, Nevada og Ohio. Þá hafa margir gagnrýnt leyndina í kringum frumvarpið og hina hröðu afgreiðslu sem stefnt er að.

„Það er engin leið til að greiða atkvæði um þetta í næstu viku,“ sagði repúblikaninn og öldungadeildarþingamaðurinn Ron Johnson í Meet the Press á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert