CNN aftur flækt í hneykslismál

CNN og Donald Trump hafa eldað grátt silfur.
CNN og Donald Trump hafa eldað grátt silfur. Mynd/Wikipedia

Bandaríski fjölmiðillinn CNN á undir högg að sækja eftir að upptökur birtust í dag sem sýna framleiðanda heilbrigðis- og matvælafrétta tala um að fréttaflutningur um Donald Trump Bandaríkjaforseta sé að mestu knúinn af því að fá sem mestan lestur á fréttirnar.  

Um er að ræða myndbandsupptökur úr falinni myndavél af framleiðslustjóranum John Bonifield ræða við ónafngreindan mann. Bonifield virðist ekki vita að verið sé að taka hann upp og talar tæpitungulaust. Þessu er greint frá á fréttavefsíðunum The Hill, The Washington Times og The Washington Examiner

„Þetta gæti verið kjaftæði. Ég meina, þetta er að mestu leyti kjaftæði eins og er. Við höfum ekki haldbær sönnunargögn,“ sagði Bonifield um fréttaflutning af tengslum og samskiptum kosningateymis Donalds Trumps við rússnesk yfirvöld fyrir kosningarnar. 

„Og svo held ég að forsetinn hafi líklega rétt fyrir sér þegar hann segir að hann sé fórnarlamb nornaveiða,“ sagði Bonifield enn fremur. Þegar hann var spurður hvers vegna CNN hefði fjallað svo mikið um málið svaraði hann: „Þetta snýst um lestur.“

Myndbandsupptökurnar voru birtar af James O'Keefe sem hefur áður verið gagnrýndur fyrir að klippa myndböndin þannig að fólk líti verr út en ella. Hann segir að upptökurnar séu frá Atlanta þar sem fólk á hans vegum hafi náð að koma sér fyrir innan raða CNN. 

CNN gaf út yfirlýsingu vegna málsins og sagðist standa með Bonifield. „CNN stendur með John Bonifield. Fjölbreytni skoðana er það sem gerir CNN að sterku fyrirtæki, við fögnum því,“ segir í yfirlýsingunni. 

Þá hefur Donald Trump blandað sér í málið. Á Twitter segist hann búast við breytingum á stjórnendateymi CNN eftir að fyrirtækið var gómað við að „þvinga fram falsaðar Rússlandsfréttir.“

Greint var frá því á mbl.is í morgun að þrír blaðamenn CNN, þar á meðal rit­stjóri nýrr­ar rann­sókn­ar­deild­ar, hefðu sagt upp störf­um eft­ir að grein tengd Rússlandi var aft­ur­kölluð. Um var að ræða grein sem CNN hafði birt á vef sín­um um ná­inn banda­mann Don­ald Trump for­seta. CNN neydd­ist til þess að draga grein­ina til baka og biðjast af­sök­un­ar. 

Að neðan má sjá myndbandsupptökurnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert