Tekist á um Liu

Mynd af Liu Xiaobo frá árinu 2005.
Mynd af Liu Xiaobo frá árinu 2005. AFP

Kínversk yfirvöld hafna alfarið gagnrýni bandarískra yfirvalda vegna meðferðar á friðarverðlaunahafa Nóbels, Liu Xiaobo. Hann hefur verið látinn laus úr haldi vegna veikinda en hann er með lifrarkrabbamein. Liu var árið 2009 dæmd­ur í 11 ára fang­elsi fyr­ir and­óf og skrif sín gegn mann­rétt­inda­brot­um stjórn­valda í Kína.

Hvetja bandarísk yfirvöld til þess að Liu verði veitt frelsi til þess að flytja og velja sér sjálfur lækna. Krabbameinið er banvænt, samkvæmt fréttum í gær.

Bandaríska sendiráðið í Peking kom með þessa tillögu í dag og er hún í samræmi við ummæli margra helstu mannréttindalögfræðinga og aðgerðarsinna í Kína. Er þar farið fram á að Liu fái lausn án skilyrða en honum var veitt reynslulausn.

Samkvæmt upplýsingum frá sendiráði Bandaríkjanna er þar unnið að söfnun frekari upplýsinga um lagalegan rétt Liu og veikindi hans eftir að kínversk yfirvöld staðfestu að hann hafi verið fluttur úr fangelsi í sjúkrahús 23. maí.

Liu Xia, sem er ljóðskáld, hefur setið í stofufangelsi frá árinu 2010 þegar eiginmaður hennar fékk friðarverðlaun Nóbels. Hún fékk hjartaáfall árið 2014 en það ár var hún einnig greind með þunglyndi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert