Vilja ekki verða fórnarlömb May

AFP

Breskir ríkisborgarar búsettir í Evrópu óttast að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sé reiðubúin til þess að fórna réttindum þeirra til að tryggja takmarkanir á aðflutningi ríkisborgara Evrópusambandsríkjanna til Bretlands í kjölfar Brexit.

Samtök Breta sem búsettir eru í Evrópu hafa kallað eftir því að bresk stjórnvöld komi til móts við tillögur Evrópusambandsins frekar en að fylgja eftir þeirri aðgerðaáætlun sem May kynnti í breska þinginu á mánudag.

„Ef May vill vera „sanngjörn og alvörugefin“ ætti hún að samþykkja með hraði allt það sem Evrópusambandið hefur þegar lagt til. Við erum aðeins að biðja um að viðhalda núverandi ástandi án þess að gengið sé á rétt okkar; þetta er ekki spurning um göfuglyndi, þetta er spurning um réttlæti,“ segir Sue Wilson, formaður Bremain á Spáni.

Um 300.000 Bretar eru búsettir þar í landi.

Wilson segir að ef May sé reiðubúin til að takmarka réttindi og frelsi fólksins eigi það rétt á því að vita um hvað ræðir.

British in Europe, bandalag 11 samtaka Breta víðsvegar í Evrópu, segist hafa áhyggjur af því að réttindi Breta erlendis verði hunsuð í flýtinum við að setja nýjar reglur um aðflutning fólks til Bretlands.

„Við teljum að bresk stjórnvöld verði að gera mun meira til að sýna að þau taki þá skyldu sína alvarlega að annast um og vernda hina 1,2 milljón breskra ríkisborgara í Evrópu. Annars eigum við á hættu að verða fórnarlömb Brexit,“ segir Jane Golding, stjórnarformaður British in Europe.

Hún segir flestar tillögur stjórnvalda til þessa snúa að stöðu ríkisborgara ESB-ríkjanna sem búsettir eru á Bretlandseyjum og að núverandi stefna ógni framtíð Breta búsettra í Evrópu.

Evrópusambandið hefur lagt fram fjögurra blaðsína tillögu um að öll núgildandi réttindi allra ríkisborgara Evrópusambandsins sem verða fyrir áhrifum Brexit verði tryggð fyrir lífstíð. Tillaga May skerðir hins vegar sum þessara réttinda.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert