Mikill viðbúnaður vegna draugagangs

Draugasetrið á Stokkseyri hefur að geyma eftirlíkingar af draugum.
Draugasetrið á Stokkseyri hefur að geyma eftirlíkingar af draugum. mbl.is/Ómar

Lögreglan í Taílandi var kölluð út til þorps í austurhluta landsins til þess að rannsaka draugagang. Þorpsbúar segja að illgjarni draugurinn, sem mun vera kvenkyns, hafi hrellt þá í marga mánuði. 

Fréttavefur breska ríkisútvarpsins greinir frá drauginum sem nefnist Phi pob og er honum gefið að sök að hafa drepið fjórar kýr og valdið veikindum hjá fjórum landamæravörðum. 

Þorpsbúar óskuðu eftir aðstoð lögreglu til þess að „efla þorpsandann og koma í veg fyrir að grípi um sig skelfing“ og nú hefur lögreglan hafið gæslu á svæðinu í von um að  halda drauginum í skefjum. Lögreglustjórinn á svæðinu segir að fleiri trúi á Phi pob en ekki. 

Talið er að Phi pob geti heltekið manneskjur og valdið óreiðu í heilu þorpunum en á hverju ári berst lögreglu margar tilkynningar um draugagang á landsbyggðinni. 

Á síðasta ári var lögreglu tilkynnt að þrír einstaklingar, sem voru taldir hafa verið andsetnir af Phi pob, hefðu neytt fjölskyldumeðlimi og nágranna með eggvopni til þess að afklæðast. 

Phi pob er ekki eini andinn í Taílandi, þar sem hjátrú er algeng, því að minnsta kosti 20 andar reika um landið og eru þeir ekki allir illgjarnir. Einn þeirra, Phi Poang Khang, er þekktur fyrir að „taka á sig mynd svarts apa sem sýgur stóru tær fólks sem sefur í frumskóginum.“ Annar, Phi Kra-sue, er sagður taka á sig mynd fallegrar konu sem gengur í síðum kjól til þess að fela það að hún hafi engan líkama, aðeins nakin líffæri.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert