Skaut á dómshúsið úr þyrlu

Lögreglan leitar enn mannsins sem gerði atlögu að dómshúsinu.
Lögreglan leitar enn mannsins sem gerði atlögu að dómshúsinu. AFP

Herinn í Venesúela leitar að lögreglumanni sem grunaður er um að hafa gert árás á dómshús Hæstaréttar úr þyrlu. Engan sakaði í árásinni sem átti sér stað í gærkvöldi. 

Lögreglumaðurinn Oscar Pérez setti inn myndband á Instagram þar sem hann játar sök og biður íbúa Venesúela að rísa upp gegn ríkisstjórn Nicolás Maduros forseta. Lögregla hefur nú þegar gert leit á heimili Pérez. 

Blá lögregluþyrla sást fljúga yfir höfuðborgina Caracas með borða sem á stóð „350 Frelsi“ sem er tilvísun í ákvæði í stjórnarskránni sem andstæðingar Maduros vísa til þegar þeir segja að ríkisstjórnin sé ólögmæt. 

Ríkisstjórnin segir að þyrlan hafi skotið 15 skotum á viðburð á vegum innanríkisráðuneytisins. Síðan hafi hún flogið yfir dómshúsið og varpað fjórum sprengjum. Þyrlan var merkt rannsóknarlögreglunni CICPC sem Oscar Pérez hafði unnið fyrir í 15 ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert