Trump safnar fyrir Trump á hóteli Trump

Trump International Hotel stendur við Pennsylvania Avenue, götuna sem liggur …
Trump International Hotel stendur við Pennsylvania Avenue, götuna sem liggur á milli Hvíta hússins og þinghússins. AFP

Það eru meira en 1.200 dagar í næstu forsetakosningar í Bandaríkjunum en Donald Trump er þegar farinn að safna. Í kvöld mun hann sitja fjáröflunarkvöldverð í þágu Repúblikanaflokksins og hans eigin kosningaherferðar en viðburðurinn fer fram á Trump International Hotel í Washington; aðeins steinsnar frá Hvíta húsinu.

Kvöldverðurinn kostar 35.000 dali á haus, það eru 3,6 milljónir króna.

Mörgum þykja fjáraflanir af þessu tagi „óþægilegar“ en staðreyndin er sú að það hefur löngum tíðkast að sitjandi forseti sæki viðburði á borð við þennan, hvort sem er til að safna fyrir flokkinn eða sjálfan sig.

Þegar um er að ræða viðskiptajöfurinn Donald Trump flækjast hins vegar málin; þeir sem mæta í kvöld munu ekki eingöngu leggja kosningabaráttu hans lið heldur einnig Trump-viðskiptaveldinu.

Trump er alltumlykjandi.
Trump er alltumlykjandi. AFP

Þrátt fyrir að forsetinn hafi falið sonum sínum daglegan rekstur á Trump enn sinn hlut í Trump-merkinu, óskertan. Vegna þessa hafa um 200 þingmenn Demókrataflokksins höfðað mál á hendur forsetanum en þeir segja hann brjóta gegn stjórnarskránni með því að þiggja greiðslur erlendis frá í gegnum hótel- og golfrekstur sinn.

Þá hefur annað mál verið höfðað af yfirvöldum í Maryland og Washington en þau vilja meina að Trump International Hotel, sem opnaði nokkrum vikum fyrir forsetakosningarnar, njóti verulegs forskots umfram önnur hótel vegna tengsla sinna við Hvíta húsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert